Ósvífnir fjárglæframenn ógna fiskimiðum okkar og náttúru.

Við værum ekki hress ef tugum tonna af olíu væri dælt í Þingvallavatn fyrir mistök. 

Nú ætti að vera nóg komið af ósvífni fjárglæframanna á öllum sviðum. 

Hér um okkar dýrmætustu fiskimið sigla vanmönnuð risaskip af öllum gerðum.  

Ósvífnar útgerðir leggja óbætanlega náttúru og auðlindir í hættu með því að sniðganga reglur siðaðra ríkja.

Samevrópska siglingalöggjöfin miðar að því að skip séu nægilega mönnuð til að forðast slys.

Sömu reglur gera ráð fyrir eðlilegum og nægum hvíldartíma áhafnar til að forðast slys.

Allt þetta er sniðgengið af skipafélögum út af siðblindri græðgi eigenda. 

Nú þurfa alþingismenn að hysja upp um sig og setja lög um að hentifánaskip fái ekki að sigla inn í íslenska lögsögu nema með lóðs.

Eða að þau fylgi íslenskum lögum á meðan þau sigla hér inn og út. 

Það er óskandi að norsk yfirvöld rannsaki rækilega mönnun og vinnuálagið á skipstjórnendum Goðafoss.  

Hvað sem líður undanfarandi svefni og hvíld skipstjórans í þetta sinn, sjá allir að það var engan veginn nægilegt að einn maður sigli svo stóru skipi í kolsvarta myrkri um skerjagarð.

Svo er greinilega óeðlileg tímapressa á skipstjórnarmenn að halda stífa áætlun. 

Skipstjórinn gaf vel í strax og lóðsinn fór frá borði og skipið var á fáum mínútum komið á 13,5 hnúta hraða þegar það strandaði. 

Orsökin liggur hjá útgerðinni ekki skipstjóranum.  

 


mbl.is Ekki hressir með Goðafoss
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: GAZZI11

Æðsta valdið er skipstjórinn. Hann hefði átt að hafa háseta eða stýrimann með sér í brúnni á þessum hluta siglingarinnar þar til komið er á örugga siglingaleið ..

Það er hæpið að kenna útgerðinni um þetta ..

GAZZI11, 19.2.2011 kl. 22:35

2 Smámynd: Viggó Jörgensson

Um borð virðast aðeins tveir stýrimenn sem ganga þá átta tíma vaktir á móti skipstjóranum.

Það þarf þá að borga öðrum stýrimanninum aukavakt sem er varla vinsælt. 

Fjárhagsáælunin er ekki á valdsviði skipstjórans.   

Auðvitað er þetta útgerðinni að kenna. 

Hún siglir undir hentifána til að þurfa ekki að manna skipin almennilega. 

Viggó Jörgensson, 19.2.2011 kl. 23:26

3 Smámynd: Viggó Jörgensson

Á næsta ári verða 100 ár frá Títanic slysinu.

Það slys var líka útgerðinni að kenna. 

Útgerðarmaðurinn sjálfur var með í förinni og tók völdin af skipstjóranum. 

Útgerðarmaðurinn var beint og milliliðalaust að tala við yfirvélstjórann um hraða skipsins og hvernig hann skyldi aukinn jafnt og þétt. 

Skipstjórinn hafði þá bara ekkert um það að segja að siglt var á ofsahraða í kolsvarta myrkri þar sem tilkynnt hafði verið um ísjaka. 

Svo mikill var hrokinn að loftskeytamaðurinn sagði öðrum slíkum að þegja þegar sá vildi vara við ís á svæðinu. 

Peningagræðgin hefur ekkert breytst.  

Menn sniðganga reglur eins og þeir komast upp með.   

Viggó Jörgensson, 19.2.2011 kl. 23:37

4 identicon

Þær reglur sem unnið er eftir varðandi vaktir í brú eru skv. alþjóðlegum kröfum sem kallast STCW. Þau ríki sem aðilar eru að Alþjóðasiglingastofnuninni IMO skuldbinda sig til að vinna eftir þeim kröfum. Íslenskar reglur um vaktstöður í íslenskum kaupskipum eru setta með hliðsjón af STCW. Hins vegar gilda íslenskar reglur ekki um borð í Goðafossi sem skráður er á Antigua og Barbuda. Engu síður er unnið eftir þessum alþjóðlegum kröfum sem þar eru. Ef það væri ekki gert fengi skipið og útgerðin engan frið fyrir eftirlitsmönnum sem vinna samkvæmt alþjóðlegum samningum um hafnarríkiseftirlit.

Varðandi hraða skipsins þá er ljóst að hann var yfir 13 hnútar þegar skipið strandaði. Skipið gengur allt að 20 hnúta og var því ekki á fullri ferð. Hraði skipsins var allt að 15 hnútar meðan lóðsinn var um borð en dregið var úr ferð skipsins niður í 7-8 hnúta til að hleypa lóðsinum frá borði. Hraðinn var um 13 hnútar þegar skipið strandaði þ.e. minni en þegar lóðsinn var um borð.

Ekki er ólíklegt að vakthafandi stýrimaður hafi fylgt lóðsinum niður og jafnvel vakthafandi háseti líka. Þegar lóðsinn er farinn frá borði þarf að hífa inn leiðarann og sjóbúa hann. Slíkt verklag er vel þekkt um borð í flutningaskipum og á meðan er skipstjórinn einn í brúnni.

Það að lóðsinn fór frá borði á þessum stað frekar en utar má líklega rekja til reynslu skipstjórans á Goðafossi af siglingum á þessu svæði. Skipstjórinn er hins vegar búinn að greina frá að hann hafi gert mistök. Ekki hefur komið nákvæmlega fram hver þau voru önnur en þau að siglt stefna skipsins hafi verið röng, sem gefur augaleið. Skipstjórinn viðurkennir þar með ábyrgð sína.

Vissulega er skipið að sigla eftir áætlun og vissulega eru færri um borð í kaupskipum í dag en t.d. fyrir 30 árum. Ábyrgð siglingarinnar er þó engu síður skipstjórans.

Guðmundur (IP-tala skráð) 20.2.2011 kl. 00:19

5 Smámynd: Viggó Jörgensson

Þakka þér málefnaleg svör Guðmundur.

Unnið eftir alþjóðlegum kröfum - ekki þeim evrópsku, við náum því. 

Þessar alþjóðlegu kröfur duga augljóslega ekki til að tryggja öryggi, það liggur á borðinu í þessu tilfelli.

Ég vann fjögur sumur hjá Eimskip fyrir meira en 30 árum.  

Þá voru a. m. k. þrír stýrimenn um borð auk skipstjóra. 

Ég man líka að hásetar stóðu vaktir í brúnni á millilandaskipum. 

Mér er það óskiljanlegt afhverju stýrimaður og jafnvel vakthafandi háseti fylgja lóðs frá borði, við slíkar aðstæður. 

Í myrkri og skerjagarði hélt maður að þeir ættu frekar að vera í brúnni til aðstoðar æðsta manni þar. 

Einhvern tíma var mér sagt að brytinn ætti að taka á móti gestum og kveðja þá, en það á kannski frekar við farþega.   

Viggó Jörgensson, 20.2.2011 kl. 01:47

6 Smámynd: Viggó Jörgensson

Orsökin er augljóslega færri í áhöfn sem er á ábyrgð útgerðarinnar. 

Þú segir vakthafandi háseti.   Það er sem sagt aðeins einn háseti á vakt í einu? 

Hafi þessi eini háseti verið á brúarvakt þarf hann að fara niður og gera leiðarann sjókláran þegar lóðsinn er farinn. 

Lágmarkið væri þá að stoppa skipið ef tveir af þremur mönnum í brú þurfa að yfirgefa brúna við þessar aðstæður. 

Að eitthvað sé alvanalegt við þessar aðstæður gef ég ekkert fyrir.

Á tímum Títanic var líka alvanalegt að sigla fulla ferði í myrkrinu innan um ísjakanna við Nýfundnaland.

Því verklagi réðu útgerðirnar.  Skipstórarnir áttu að halda áætlun.  

Viggó Jörgensson, 20.2.2011 kl. 02:01

7 identicon

Já Viggó, það er af sem áður var þegar nóg var af mönnum á skipunum. Því miður hefur þetta orðið þróunin. Fleirri tæki á færri hendur og hraðinn eykst.

En ég tek það fram að þetta eru getgátur með að stýrimaður og háseti hafi verið að fylgja lóðsinum, því víða er það þannig.

Auðvitað á ekkert að slaka á öryggiskröfum. Nú veit ég ekkert hversu langt lóðsinum er skylt að vera um borð, óski skipstjóri þess, en því miður er það staðreynd að þegar menn eru orðnir vanir þá finnst þeim tilsögn óþörf.

Ég tek undir það með þér að eðlilegast hefði verið að stýrimaður hefði verið skipstjóra til aðstoðar úr því að skipið var ennþá í skerjagarðinum.

Guðmundur (IP-tala skráð) 20.2.2011 kl. 04:28

8 identicon

"Allt þetta er sniðgengið af skipafélögum út af siðblindri græðgi eigenda. "

Ertu með einhver rök til að styðja þetta ... eða ertu bara að bulla?

Joseph (IP-tala skráð) 20.2.2011 kl. 05:45

9 Smámynd: Viggó Jörgensson

Varst þú að vaka eftir langt meðvitundarleysi Joseph?

Vonandi að endurhæfingin gangi vel. 

Viggó Jörgensson, 20.2.2011 kl. 13:30

10 Smámynd: Viggó Jörgensson

Þakka þér innleggið Guðmundur.

Við mennirnir erum ekki tölvur og við gerum mistök.  

Þarna er skipstjórinn kominn í aðstæður sem einn maður á ekki að vera í, 

sama hversu vanur hann er. 

Bkv. Viggó. 

Viggó Jörgensson, 20.2.2011 kl. 13:47

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband