29.10.2009 | 19:11
Alþingi hefur ekki umboð þjóðarinnar til að samþykkja dauðarefsingu, icesave samninginn, inngöngu í ESB eða að gefa auðlindir okkar.
Þó að formlega hafi Alþingi umboð til að setja lög um hvaðeina er það ekki þannig í reynd. Burtséð frá því að sumt þarf að vera innan marka gildandi skráðrar stjórnskipunar, þá er það þannig að alþingsmenn hafa til dæmis ekkert umboð frá þjóðinni til að samþykkja frumvarp til nýrra stjórnskipunarlaga um að hér verði tekin upp dauðarefsing. Þeir hafa ekki umboð til þess þó svo að þá langaði alla til þess. Í slíku tilfelli þyrfti í millitíðinni að boða til kosninga og í þeim myndi þjóðin þá hreinsa til í alþingishúsinu.
Enginn eðlismunur er á icesave eða dauðarefsingu. Til hvorugs hafa alþingismenn umboð frá íslensku þjóðinni. Þeir hafa heldur ekki umboð til að samþykkja inngöngu í ESB en til þess þarf að breyta stjórnarskránni þannig að þar er hættan minni.
Formlega getur Alþingi hins vegar samþykkt icesave þannig að erlendar þjóðir leggi á það trúnað að þjóðin ætli að standa við slíkan samning. Það væri þó engan veginn víst enda er núverandi icesave samningur gerður undir minni háttar nauðung sem er auðvitað ógildingarástæða. Við höfum verið beitt hreinni fjárkúgun og hótunum í samningsferlinu. AGS notaður blygðunarlaust til að kúga okkur og forsvarsmenn ESB hótað að reka okkur úr EES þar sem við höfum um helming utanríkisviðskipta okkar. Fjárkúgun er það og ekkert annað. Stjórnarandstaðan ætti að tilkynna ESB, Bretum og Hollendingum að við séum óbundin af icesave samningnum vegna nauðungar við gerð samningsins.
Við munum því ekki standa við samninginn um leið og við losnum undan nauðung þeirra.
Hneyksli á Íslandi | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt 13.1.2010 kl. 15:50 | Facebook
Athugasemdir
Sammála.
Hafsteinn Björnsson, 29.10.2009 kl. 19:57
Jú. Ábyrgðin er stórnarinnar og þeirra kjósenda sem kusu þá flokka.
Guðmundur Jónsson, 29.10.2009 kl. 20:06
IceSave (eins og málið lítur út í dag) er reyndar harðbannað skv. stjórnarskrá Lýðveldisins Íslands.
77. gr.: Skattamálum skal skipað með lögum. Ekki má fela stjórnvöldum ákvörðun um hvort leggja skuli á skatt, breyta honum eða afnema hann. Enginn skattur verður lagður á nema heimild hafi verið fyrir honum í lögum þegar þau atvik urðu sem ráða skattskyldu.
Athugasemd: Eina leiðin fyrir ríkið til að fjármagna greiðslur skv. IceSave samningnum er að leggja skatt á okkur þegnana. Heimild til að leggja á slíkan skatt var hinsvegar ekki fyrir hendi í lögum þegar þau atvik urðu sem ráða skattskyldunni, þ.e. greiðslustöðvun Landsbankans í október 2008, löngu áður en málið kom til kasta Alþingis. Niðurstaða: það getur ALDREI orðið löglegt að láta íslenska skattgreiðendur borga IceSave.
Svipað álit kemur fram í skýrslu Ríkisendurskoðunar um endurskoðun ríkisreiknings 2007 þar sem segir að fella skuli sjálfseignarstofnunina Tryggingasjóð Innstæðueigenda úr D-hluta ríkissjóðs og er það rökstutt og áréttað með eftirfarandi hætti.
Á bls. 9 og bls. 57: Sjóðurinn getur með engu móti talist eign ríkisins og það ber heldur ekki ábyrgð á skuldbindingum hans.
Sumir hafa viljað halda því fram að íslenska ríkisstjórnin hafi á einhvern hátt skuldbundið sig með því að gefa út yfirlýsingar eða skrifa undir einhver plögg þar sem viðurkennt er að við skuldum þetta. Ekkert af þessu getur samt skuldbundið ríkissjóð að lögum, til að útskýra það má einnig vísa í stjórnarskránna.
40. gr: Engan skatt má á leggja né breyta né af taka nema með lögum. Ekki má heldur taka lán, er skuldbindi ríkið, né selja eða með öðru móti láta af hendi neina af fasteignum landsins né afnotarétt þeirra nema samkvæmt lagaheimild.
Athugasemd: Aftur er hér skortur á lagaheimild til umræddra stjórnvaldsaðgerða.
Aðrir hafa bent á að Ísland væri á einhvern hátt skyldugt til að ábyrgjast IceSave vegna einhverra alþjóðlegra reglna eða tilskipana. Við skulum því athuga hvað hin evrópska tilskipun 94/19 EB um innstæðutryggingar segir um þetta:
Í inngangi (bls. 3): Tilskipun þessi getur ekki gert aðildarríkin eða lögbær yfirvöld þeirra ábyrg gagnvart innstæðueigendum ef þau hafa séð til þess að koma á einu eða fleiri kerfum viðurkenndum af stjórnvöldum sem ábyrgjast innlán eða lánastofnanirnar sjálfar og tryggja að innstæðueigendur fái bætur og tryggingu í samræmi við skilmálana í þessari tilskipun.
Einnig í 3. gr. 1. hluta: Kerfið má ekki felast í tryggingu sem aðildarríkin sjálf eða héraðs- og sveitastjórnir veita lánastofnun.
Til fróðleiks má líka vitna í skýrslu frá bankaeftirliti franska seðlabankans árið 2000 um innstæðutryggingakerfi, en einn af höfundum hennar var Jean-Claude Trichet fv. fjármálaráðherra og núverandi Seðlabankastjóri Evrópu.
Kafli 2.3.1., 3. mgr.: Although the goal of enhancing the stability of the banking system was clearly stated, the system introduced in France, as in most countries possessing formal deposit guarantee schemes, was not meant to deal with systemic crises, for which other measures are needed.
Athugasemd: Þess má geta að innstæðutryggingakerfið í Frakklandi er byggt upp á sama hátt og hið íslenska, með u.þ.b. 1% bindiskyldu af tryggðum innstæðum. Mat skýrsluhöfunda er að slíku kerfi sé ekki ætlað að fást við algjört kerfishrun, heldur kalli slíkar aðstæur á "annarskonar" úrræði, án þess að það sé skilgreint nánar.
Að lokum þá vil ég taka fram að ég er ekki lögfræðingur, en ég kann hinsvegar að lesa og mér þykir alls ekkert óskýrt það sem upp er talið hér að ofan.
Guðmundur Ásgeirsson, 29.10.2009 kl. 20:33
Góður rökstuðningur Guðmundur og vil ég þó taka dýpra í árinni, því að Tilskipun 94/19/EB beinlínis bannar aðildarríkjum Evrópska efnahagssvæðisins að taka ábyrgð á innistæðu-tryggingunum.
Icesave-ábyrgðin getur ekki verið á herðum Íslendskrar þjóðar og ábyrgðarlögin verður því að ógilda við fyrsta tækifæri. Annar möguleiki er auðvitað að stofna nýtt lýðveldi í landinu, fyrir þá sem hafna Iceslave-reikningnum. Sossarnir geta fengið að halda einhverjum skika fyrir sig og Icesave-ábyrgðina.
Loftur Altice Þorsteinsson, 30.10.2009 kl. 11:39
Ég get ekki séð að þú eigir framtíðina bjarta fyrir þér á sviði lögfræði ef rökstuðningur þinn fyrir því að Alþingi hafi ekki umboð til að samþykka Icesave samkomulagið er byggður á grundvelli 69. gr stjórnarskráarinnar .
Sjálf get ég eigi séð fyrir mér að löglærðir menn og aðrir fræðimenn geti samþykkt túlkun 69.gr með þessum hætti .
„sumt þarf að vera leyft í stjórnarskrá“ er ekki með öllu rétt hjá þér því að lög sem lýðræðislega kjörnir fulltrúarsetja eftir þrjár umræður á þingi sbr. 44.gr stjórnarskrár lýðveldisins þurfa ekki að eiga sér stoð í stjórnarskrá heldur mega þau ekki ganga í berhögg við stjórnarskrá.
Að mínu mati er ekki að finna neitt í stjórnarskrá lýðveldisins sem að túlka megi með þeim hætti að Icesave samkomulagið brjóti í bága við ákvæði hennar
Af skrifum þínum að dæma má ætla að þú gerir þér grein fyrir afleiðingum þess að gangast ekki undir Icesave þar sem þitt mat er að forsenda sé fyrir riftun samnings á grundvelli nauðungar. Því á ég erfitt með að skilja afstöðu þína til þessa máls.
Það vekur upp í mér óhug að einstaklingar séu mótfallnir því að við göngumst undir Icesave, sér í lagi metnaðargjarnir einstaklingar sem laganemar jú svo sannarlega eru.
Það er munur á staðreyndum og að „finnast „ t.a.m finnst mér siðferðislega rangt að ég og þú hinn almenni borgari þurfum að sæta skertum lífskjörum sökum áhættusamrar ef ekki glæpsamlegrar hegðunar einstakra manna. Aftur á móti er staðreyndin sú að gerum við það ekki mun það hafa miklar afleiðingar fyrir okkur. Það er mat næstum allra nærliggjandi þjóða að við berum ábyrgð í þessu máli. Að mínu mati tel ég það nánast ómögulegt fyrir okkur að beita náttururétti í máli þessu gagnvart öðrum þjóðum þ.e.a.s að siðferðislega finnist okkur þetta rangt og að af þeim sökum séum við ekki ábyrg.
Eins og staðan er í dag, tel ég að það sé skynsamlegast að ganga undir Icesave, láta á það reyna að sem mest náist upp í skuldbindingarnar í von um að samkomulagið hafi lítil áhrif á okkur, ef raunin verður svo með öðrum hætti, má alltaf endursemja og leita betri lausna. En eins og staðan er í dag þurfum við að öðlast traust annarra þjóða, sýna að við erum ábyrg þjóð og ætlum að standa upprétt og halda andliti gagnvart öðrum þjóðum í þessum hremmingum sem hafa tröllriðið yfir land og þjóð.
Að lokum bendi ég á að mér þykir með ólíkindum hvað málefni þetta hefur hlotið mikla umfjöllun sem og gagnrýni, sérstaklega í ljósi þess að Icesave er einungis agnarbrot af skuldum Ríkissjóðs og þar að auki hefur verið leitt í ljós að yfir 90 % muni nást upp í Icesave
Solla Bolla (IP-tala skráð) 30.10.2009 kl. 12:37
Sæl/Sæll Solla Bolla
Ég veit vel að stundum er það á mörkunum hvort maður er að fjalla um lex lata eða lex ferenda. Lögfræði eða stjórnmál.
Ég er auðvitað sammála þér almennt talað, að almenn sett lög "...mega ekki ganga í berhögg við stjórnarskrá...".
Ég er ekkert að vísa til 69. gr. stskr. vegna icesave. Ég er sokkinn miklu dýpra en það. Eiginlega alveg ofan í botn.
Grundvallaratriði lögfræðinnar í hverju samfélagi er að lögin vinni að því markmiði að undirstöður samfélags manna haldi og að samfélagið gangi og haldist saman til frambúðar. Nema þeir sem eru í því samfélagi ákveði með réttum hætti að leysa það upp.
Það að samfélagið haldist er sjálfstætt markmið. Tilvist laga og lögfræði þjónar aðeins þessum og öðrum samfélagslegum markmiðum. Ef aftur verður ...stríð allra gegn öllum... þarf hvorki lög né lögfræði.
Ef við gefum okkur að einstaklingar viðkomandi samfélags, eða þjóðfélags, hafi ekki ákveðið að leysa þjóðfélag sitt upp. Þá hefur formlega rétt lögfræðileg niðurstaða þau endamörk að hún getur ekki beinst að því að leysa upp þjóðfélagið eða tortíma því. Við getum sagt að þetta sé grunnvallarréttarheimildin sem allar hinar byggja á, eðli málsins samkvæmt.
Þó svo að jafnvel almenn sett lög gætu í einhverjum aðstæðum, formlega staðið til þess að tortíma þjóðfélaginu eða leysa það upp, væri slík niðurstaða samt sem áður ekki tæk. Í það sinn yrði að víkja þeim til hliðar og taka þá niðurstöðuna sem yrði til þess að samfélagið héldist. Réttarheimildin yrði þá stjórnskipulegt eðli máls samanber framangreint. Það var þetta sem ég átti við þegar ég sagði "sumt þarf að vera leyft í stjórnarskrá" en hefði átt að segja; sumt þarf að vera innan grundvallarstjórnskipunar íslenska ríkisins.
Það er þetta sem ég á við, þegar ég segi að alþingi hafi ekki umboð þjóðarinnar til að skrifa upp á óútfyllta ávísun sem gæti leitt til gjaldþrots ríkisins og upplausn íslenska þjóðfélagsins. Slíka áhættu verður þjóðin að samþykkja sjálf og það jafnvel með auknum meirihluta.
En meira um lex ferenda. ESB / EES reglugerðin um lágmarkstryggingar var stórkostlega gölluð miðað við það sem ESB stefndi að. Þar sagði að ábyrgðarsjóði hvers lands væri heimilt en ekki skylt að taka lán til að eiga fyrir lágmarkstryggingu.
Það er þarna sem forsvarsmenn ESB, Breta, Hollendinga og allra hinna beita fyrir sig lex ferenda. Þeir vilja að lögin séu öðru vísi en þau eru. Þeir vilja að hvert ríki ábyrgist lágmarksupphæð þó svo að til dæmis Alþingi Íslendinga hafi aldrei samþykkt slíka ríkisábyrgð, heldur aðeins þessa ESB reglugerð sem almenn lög.
Það hefur komið fram að samninganefnd okkar hafi verið neydd til að fallast á slíkar lögskýringar undir þeim hótunum að við yrðum annars rekin úr EES. Auðvitað er þetta ekkert annað en minni háttar nauðung samkvæmt íslenskum lögum. Ég læt liggja milli hluta afstöðu þjóðaréttar til þessa. Hvernig við eigum að fóta okkur í þessu er auðvitað að stórum hluta stjórnmálalegt viðfangsefni miklu frekar en lögfræðilegt. Við flytjum landið ekkert úr Evrópu er það?
Kærar þakkir fyrir innleggið.
Viggó Jörgensson, 31.10.2009 kl. 20:20
Viggó, þótt ég sé efnislega sammála því sem þú ert að segja í pistil þínum, þá er ég ekki sammála einu sérstöku atriði. Þú segir:
Tilskipun 94/19/EB varðar innistæðu-trygginga-kerfi á Evrópska efnahagssvæðinu (EES). Þar segir að aðildarríki EES mega ekki taka ábyrgð á innistæðu-tryggingunum. Það eru trygginga-kerfin sem eiga að gera það. Tilskipun 94/19/EB er ekki gölluð, heldur algerlega eðlileg. Til þess liggja þrjár megin ástæður, sem varða:Tilskipun 94/19/EB er því fullkomlega eðlileg og rétt. Það sem hins vegar er “stórkostlega gallað” er sú krafa ESB-ríkjanna, að vikið sé frá eðlilegri reglu og eðlilegri tilskipun. Að auki hefur ESB nú snúið við blaðinu og sent frá sér Tilskipun 2009/14/EB, þar sem í stað Deposit-guarantee schemes shall stipulate (ábyrgð) er komið Member States shall ensure (ábyrgð).
Loftur Altice Þorsteinsson, 31.10.2009 kl. 21:54
Sæll Loftur
Ég var aðeins að vísa til þess að lagaverkið hafi verið stórkostlega gallað frá sjónarhóli þeirra sem voru í þeirri lögvillu að ríkissjóðir aðildarríkjanna ættu að ábyrgjast lágmarksupphæðir innstæðutrygginga.
Hitt vissi ég ekki að ýmsir fagmenn innan embættismannakerfis ESB hafa greinilega áttað sig á þeim ómöguleika að tryggja óútfylltan tékka, eins og þú bendir á.
Við erum alveg sammála um það sé alveg ótækt að þessi lögskýring um ríkisábyrgð ráði kröfugerð á hendur okkur.
Enginn þarna í Brussel virðist hafa gert ráð fyrir svona kreppu þrátt fyrir söguna. Þeir sem eru ábyrgir fyrir þeim mistökum reyna auðvitað að rétta sinn hlut.
Þegar lögfræðingar fara langt fram úr sér til að rökstyðja sitt mál, eru lögskýringar þeirra kallaðar framsæknar.
Það er að lesa úr lögunum eitthvað sem engum datt í hug að væri hægt þegar þau voru sett.
Kærar þakkir fyrir þessar viðbótarupplýsingar.
Viggó Jörgensson, 1.11.2009 kl. 00:40
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.