5.12.2008 | 17:23
Hvað líður rannsókn á vörubílstjóramótmælum og framgöngu lögreglu þar?
Miðað við lýsingar sjónarvotta og myndbönd voru lög brotin þar af einstökum lögreglumönnum.
Ef lögreglan hefði tekið svona á alþingismönnum að koma úr árlegri þingveislu eða lögmönnum að koma af árshátíð Lögmannafélagsins. Halda menn að það hefði verið rannsakað?
En vörubílstjórar og nærstaddur almenningur. Var það bara allt í lagi og engrar rannsóknar þörf?
Lögreglumaður sakfelldur fyrir líkamsárás | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Hvaða lög brutu lögreglumenn þar?
Hin Hliðin, 5.12.2008 kl. 20:48
T. d. stjórnskipunarlögin ( stjórnarskrána ) greinina um meðalhóf. Það brot snýr að yfirmönnum. Þeir voru búnir að ákveða fyrirfram að beita hörðum aðgerðum. Það er skýlaust brot á meðalhófsreglunni um að stjórnvöld beiti alltaf vægasta úrræði sem mögulegt er, til að ná lögmætum markmiðum sínum. Af hálfu lögreglu var lögmæt framkvæmd að biðja vörubílstjóra að færa sig og gefa þeim til þess sanngjarnan frest, en láta þess getið að lögreglan myndi að örðum kosti beita líkamlegu ofbeldi. Ríkisvaldið er eini aðilinn sem hefur heimildir til að beita aðra ofbeldi en ríkar lagakröfur eru um rétta framkvæmd þess. Þannig getur handtaka falið í sér líkamlegt ofbeldi ef sá sem handtaka á, beitir líkamsstyrk sínum til að forðast handtöku. Þá hafa handhafar lögregluvalds lagaheimildir til að beita þann sem á að handtaka líkamlegu ofbeldi til að handtakan geti farið fram. Á engan hátt má beita meira ofbeldi en nauðsynlegt er í hvert skipti. Ef margir lögreglumenn handtaka aðila sem hefur lítið líkamlegt afl er þeim skylt að framkvæma það þannig að viðkomandi verði ekki fyrir neinum meiðslum. Ekki mættu þeir beita gasúða eða kylfum eða yfirhöfuð meiða viðkomandi nokkuð, umfram það að taka styrkum höndum um útlimi viðkomandi og setja á hann handjárn, væri það nauðsynlegt. Allt annað ætti við, tæki sá sem handtaka ætti, upp vopn t. d. hníf eða barefli. Þá ætti að aðvara viðkomandi um að leggi hann ekki niður vopnin megi hann búast við að vopn verði notuð á hann, af hálfu lögreglu. Í slíkum tilfellum má lögreglan ekki gera neitt umfram nauðsyn. Væri viðkomandi yfirbugaður með gasi þannig að hann missti vopn sín mætti t. d. ekki að auki berja hann með kylfu. Sjónarvottar af aðgerðum lögreglu við vörubílstjóra héldu því einmitt fram, að eftir að margir lögreglumenn hefðu yfirbugað ýmsa þá sem handtaka átti, hafi samt áfram gengið kylfuhöggin á hinn handtekna. Sé þetta rétt er um skýlaust brot að ræða af hálfu þess lögreglumanns sem beitti kylfunni umfram tilefni og nauðsyn. Í sjónvarpsviðtali við yfirmann aðgerða lögreglu, áður en þær hófust staðfesti hann að brjóta ætti meðalhófsreglu stjórnarskrárinnar. Fréttamaður spurði af hverju vörubílstjórar væru beittir vægari úrræðum en mótmælendur á hálendinu. Yfirmaðurinn nánast urraði á fréttamanninn að þetta væri rangt og fréttamaðurinn skyldi bara fylgjast með. Og ásetningur stjórnenda lögreglu á staðnum náði fram að ganga. Lögreglumenn hegðuðu sér ekki fagmannlega heldur mjög dólgslega og reyndu allt hvað þeir gátu til að egna bílstjóra með því að taka á þeim með pústrum, allt í þeim þeim tilgangi að framkalla riskingar sem gæfi lögreglunni tilefni til slagsmála sem tókst vonum framar. Þannig framkallaði lögreglan villjandi tilefni fyrir sig til að beita miklu harðari aðgerðum en nauðsynlegar hefðu verið að öðrum kosti. Ekki var talað um fyrir mönnum og þeim gefið í nefið eins og fyrr. Öll þjóðin horfði á brotastarfssemi lögreglunnar í beinni útsendingu þannig að ekki er um þetta að deila. Yfirvöld lögreglu og dómsmála voru hæstánægð með þessi lögbrot lögreglunnar og kölluðu þetta mannfjöldastjórnun og "...að lögreglan hefði náð markmiðum sínum..." Þetta er geymt en ekki gleymt. Enginn eðlismunur var á þessum aðgerðum íslensku lögreglunnar og glæpsamlegum aðgerðum hers og lögreglu í harðstjórnarríkjum fyrr og síðar. Lögreglan braut lög ríkisins viljandi og það er gífurlega alvarlegt mál ef það er látið viðgangast, þá er stutt í hrun hins siðmenntaða réttarríkis.
Viggó Jörgensson (IP-tala skráð) 6.12.2008 kl. 00:10
Vá. Flott svar. Ég er algerlega andsnúinn þessari stefnu sem lögreglan virðist vera að feta.... Þessari Björns Bjarnasonar stefna með stasíska fasíska tæklun lögreglunnar á fólki. Mér finnst hinsvegar Geir yfirlögregluþjóni góð fyrirmynd lögreglumanna. Hann virðist nálgast hlutina af yfirvegun og ró. Út með Björn og inn með Geir
Ég ætla samt ekki að spyrja þig að neinu, annars verðurðu í alla nótt að svara.
Jóhann (IP-tala skráð) 6.12.2008 kl. 01:38
Þú ert greinilega sannfærður um að lögreglan hafi brotið lög þarna í þessum mótmælum. Það er líka augljóst að þú ert laganemi.
Í fyrsta lagi þá beitir lögregla ekki ofbeldi við framkvæmd starfa sinna, lögreglan beitir valdi.
Í öðru lagi segir þú: "Sjónarvottar af aðgerðum lögreglu við vörubílstjóra héldu því einmitt fram, að eftir að margir lögreglumenn hefðu yfirbugað ýmsa þá sem handtaka átti, hafi samt áfram gengið kylfuhöggin á hinn handtekna" Trúir þú þessu bara sí svona? Af því að einhver sagði það? Hvað varð um að maður skuli teljast saklaus uns sekt er sönnuð? Gildir það ekki um lögreglumenn?
Í þriðja lagi segir þú: "Í sjónvarpsviðtali við yfirmann aðgerða lögreglu, áður en þær hófust staðfesti hann að brjóta ætti meðalhófsreglu stjórnarskrárinnar." Það virðist alveg hafa farið framhjá mér þegar ég horfði á sjónvarpið, Ég sá lögreglumann gefa það í skyn, að mennirnir fengju frest og síðan að valdi yrði beitt til að rýma svæðið.
Í lokin máttu gjarnan benda mér á það hvar ég get fundið meðalhófsregluna í stjórnarskránni.
Eins og ég sagði í upphafi þá ertu búin að ákveða að lögreglan sé sek um lögbrot. Þú virðist ekki vera alveg viss um það hvaða lög hún braut en þrumuræðan frá þér var nokkuð góð. Full af villum en góð.
Hin Hliðin, 6.12.2008 kl. 09:06
Já ég var víst of syfjaður, eins og þú segir er meðalhófsreglan í 12. stjórnsýslulaganna. Í greinargerð með lögunum sögðu þeir Eiríkur Tómasson, Páll Hreinsson o. fl. m. a. þar sem rætt var um 12. gr.:
“…Almennt verður að ganga út frá því að hagsmunir einstaklinga, sem verndar njóta í mannréttindaákvæðum stjórnarskrár eða alþjóðlegum mannréttindasáttmálum, vegi þungt og þá sérstaklega hagsmunir er varða frelsi manna og friðhelgi...”
Með tilvísan til ofanritaðs og einnig beitingu Hæstaréttar á meðalhófsreglunni sem lögskýringareglu á greinar mannréttindakafla stjórnarskrárinnar, hef ég litið svo á að meðalhófsreglan sé innbyggð í stjórnarskrána sjálfa rétt eins og t. d. lögmætisreglan o. fl. þó að hver og einn megi auðvitað hafa sína skoðun á því. Ég tel sem sagt að meðalhófsreglan sé meginregla sem svífi yfir stjórnskipunarrétti okkar og sé í raun innbyggð í flestar greinar stjórnarskrárinnar sem fjalla um samskipti ríkisvaldsins og borgaranna. Alltaf sama viðhorfið þ. e. krafa um að aðgerðir stjórnvalda séu vegna eðlilegra þarfa þjóðfélagsins og borgaranna. Bæði markmiðin og aðferðirnar til að ná þeim verða að grundvallast á málefnalegri nauðsyn og oft er krafist settra laga í þrengri merkingu. Yfir vötnunum svífur að aldrei skuli ganga lengra en þörf er á hverju sinni, vegna íþyngjandi aðgerða ríkisvaldsins gagnvart borgurunum. Auk sérstakrar lögfestingar í stjórnsýslulög sést meðalhófsreglan víðar í settum lögum.
Mín skoðun er sú að lögreglan hafi brotið neðangreind lög, bara ályktað af því sem ég sá sjálfur í sjónvarpinu:
101. gr. laga um meðferð opinberra mála, mælir fyrir um meðalhóf við framkvæmd handtöku.
132. gr. og 1. mgr. 217 gr. í almennum hegningarlögum, sbr. dóminn umtalaða.
Greinar III. kafla lögreglulaga um meðalhóf við beitingu lögregluvalds og handtökur, sérstaklega 1. og 2. mgr. 13. gr. og 14. gr.
Og í beinu framhaldi væru framangreind meint brot þá einnig meint brot á 5. gr. mannréttindasáttmála Evrópu sem er lögfestur hérlendis eins og þú veist.
En ég er ekki hluti af dómsvaldinu og þar með gildir reglan um að allir séu saklausir þar til dómur gengur.
Það breytir engu um að ríkissaksóknara ber að rannsaka aðgerðir lögreglu á Vesturlandsvegi vegna aðgerða vörubílstjóra.
Viggó Jörgensson, 6.12.2008 kl. 17:03
Já svo gleymdi ég því að skv. orðabók þýðir ofbeldi valdbeiting. Ofbeldi er ólögmætt nema það sem lögreglan beitir skv. valdheimildum sínum með réttum hætti.
Það er rétt að í lagatexta er þetta kallað valdbeiting eða valdheimildir en þetta er samt ofbeldi þó að það geti verið löglegt en annað ólöglegt eins og nýjasti dómurinn.
Viggó Jörgensson, 6.12.2008 kl. 17:40
Sæll Viggó. Takk fyrir að sýna mér lagagreinina um meðalhófið. Hún er semsagt ekki í stjórnarskránni heldur í stjórnsýslulögum (fín útskýring samt).
Varðandi lagareinarnar sem þú vitnar í þá að sjálfsögðu er ég með andsvör :)
101. gr. Segir að við handtöku skuli ekki baka óþægindi framar en nauðsin ber til. Fólk hlýddi ekki fyrirmælum, en samkvæmt 19. gr. lögreglulaga bar því að gera það. Lögreglan notaði þarna vægurstu úrræði sem vori í boði til að knýja fram hlýðni. Lögreglan hefði t.d. getað rýmt svæðið með því að ganga fram og berja allt og alla sem voru fyrir (eins og allir sáu voru þeir með útbúnaðinn í það), lögreglan hefði getað notað táragas (þá meina ég gas, ekki úðann) og lögreglan hefði án efa getað notað ýmislegt annað en í stað þess þá voru tveir lögreglumenn sendir fram, fólk varað við á áberandi hátt, og þeir einu sem fóru ekki strax voru spreyjaðir.
132. gr. Vísa í framkomið svar ásamt því að segja að ekkert hefur komið fram, sem sýnt hefur fram á að ólögmætra aðferða hafi verið beitt við trukkamótmælin.
217. gr. miðað við allar myndavélarnar þarna þá hefði það sést ef einhver hefði verið laminn eftir handtöku.
III kafli lögreglulaga, svarið er komið fram, lögreglan beitti vægum úrræðum.
Í lokin, Það er gaman að sjá loksins einhvern hérna sem beitir rökum en lætur ekki eins og hann sé í leikskóla.
Hin Hliðin, 7.12.2008 kl. 10:09
Já það var gaman að hittast svona á netinu og rifja upp stjórnskipunarrétt og þar með talið að meðalhófsreglan er undirstöðuregla í stjórnskipunarrétti, ekki bara hérlendis heldur í vestrænum réttarríkjum.
Reglan um þrískiptingu ríkisvaldsins er þannig meðalhófsregla sem stendur til þess að handhafar vaði ekki hver yfir annan. Meðalhófsreglan á einnig við um samskipti borgaranna við ríkisvaldið í báðar áttir. Alþingi er friðheilagt er dæmi um meðalhófsreglu þ. e. að borgararnir reyni ekki stjórna þar lagasetningu með ólögmætum hætti. Meðalhófsreglur í hina áttina eru t. d. reglur um trúfrelsi, ferðafrelsi, hugsanafrelsi, skoðanafrelsi, jafnræði, eignarrétt, atvinnufrelsi o. fl. Allt ber þar að sama brunni. Ríkisvaldið beiti meðalhófi í samskiptum sínum við borgaranna og skipti sér ekki af þeim umfram málefnalega nauðsyn, leggi ekki þá skatta sem jafna megi við eignaupptöku og mismuni ekki þeim sem eru ekki innfæddir hvítir gagnkynhneigðir karlar á sextugsaldri, eins og valdastéttinn var lengstum. Meira að segja reglan um að einungis skuli dæmt eftir lögum (en ekki geðþótta) er meðalhófsregla.
En við vorum annars að ræða um réttarríkið og lögmætisregluna. Við trukkamótmælin strengdi lögreglan gulan borða og afmarkaði það svæði sem óheimilt var að dveljast á. Til þess hafði hún fullkomnar lagaheimildir og þar með að handtaka þá sem ekki hlýddu fyrirmælum um að hverfa af því svæði þegar í stað. Við gagnályktum þá að þeim sem dvöldust hins vegar við lögregluborðann hafi verið það heimilt.
Þar voru menn vissulega að senda lögreglunni tóninn og ekki var það með kurteislegum hætti. Lögreglan hefur engu að síður neinar valdheimildir til að skipta sér að fólki sem er að nýta sér stjórnarskrármæltar heimildir sínar um tjáningarfrelsi. Samt sáum við í sjónvarpinu lögregluna ryðjast út fyrir lögregluborðann til að handtaka menn sem ekkert höfðu gert nema rífa kjaft. Höfðu sem sagt engin lög brotið en voru engu að síður handteknir með harkalegum hætti. Telur þú að þetta hafi verið lögmæt ástæða til handtöku og að aðferðin hafi verið lögmæt?
Í þessum, að mínu mati, ólögmætu aðgerðum var einnig sprautað gasi inn á það svæði sem almenningi var heimilt að dveljast á. Hluti af því gasi fór á móður og barn hennar. Móðirinn var að kaupa eldsneyti á bíl sinn. Telur þú að lögreglan hafi haft lagaheimild til að sprauta gasi á þessa konu og barn hennar?
Viggó Jörgensson, 8.12.2008 kl. 13:41
Nú er ég farinn að óttast um Hina Hliðina. Vonandi ekki á sjúkrahúsi eftir bit mótmælenda við Alþingishúsið. Ég óska þá góðs bata og sting upp á eftirfarandi lesefni:
Grein eftir dr. juris Gauk Jörundsson, prófessor, umboðsmann Alþingis og settan hæstaréttardómara: Meðalhófsreglan í stjórnskipunarrétti og stjórnsýslurétti, sem birt var í Afmælisrit Gizur Bergsteinsson níræður, 18. apríl 1992, bls. 207.
Grein eftir Björgu Thorarensen lagaprófessor og forseta lagadeildar HÍ: Áhrif meðalhófsreglu við skýringu stjórnarskrárákvæða, sem birt var í Lögberg - Rit Lagastofnunar Háskóla Íslands (til heiðurs Sigurði Líndal) árið 2003, bls. 51.
Bestu kveðjur Viggó.
Viggó Jörgensson, 16.12.2008 kl. 03:54
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.