5.11.2012 | 17:52
Og hélt hlífiskyldi yfir Margréti Müller.
Þeir sem mest hamast við að sannfæra sjálfa sig um að sr. Ágúst George sé saklaus af öllum ávirðingum.
Hafa með engu móti getað útskýrt hvers vegna maðurinn losaði sig ekki við Margréti Müller.
Þrátt fyrir að um áratugaskeið hafi rignt yfir sr. George kvörtunum yfir fúlmennsku hennar og illsku.
Hann sem átti að hafa verið svo góður við börnin og hugsað um hag þeirra fram yfir allt.
Þetta eru skelfileg mál bæði fyrir fórnarlömb og einnig fylgismenn þeirra sem ásakaðir eru.
Einn af þeim sem mest eiga bágt vegna sr. Georgs, er Vilhjálmur Örn Vilhjálmsson fornleifafræðingur í Kaupmannahöfn.
Honum er einnig stórkostlega misboðið að rannsókarnefndin gerði ekki meira með upplifun hans af sr. George.
Hann ólmast því við að kasta rýrð á nefndarmenn í rannsóknarnefndinni.
Tveir af þessum nefndarmönnum eru fyrrverandi kennarar mínir.
Sá þriðji viðskiptavinur minn um skeið og á sinni tíð einhver besti embættisdómari landsins.
Og er auk þess höfundur frábærra fræðigreina um réttarheimspeki.
Ég fullyrði, fyrir minn hatt, að hæfara fólk finnst ekki á Íslandi til að sitja í rannsóknarnefnd í þessum málaflokki.
Mér þykir því aumt að Vilhjálmur sé í bágindum sínum að kalla rannsóknarskýrsluna "...klámhögg..." og "...falsanir..."
Og þar sem ég vildi fá einhver haldbær rök hjá Vilhjálmi, auk þess að stríða honum lítillega.
Þá taldi hann mig vera "...kjána... ...ótíndan dóna, dylgjukarl..." og gerði því skóna að ég væri rasisti.
Og þó svo að allt þetta kynni að vera rétt hjá Vilhjálmi þá kom hann ekki með nein efnisrök í málinu.
En hneykslaðist eðlilega á "...siðleysi margra Íslendinga og rökleysuhyggju og múgæsingu..."
Það sem Vilhjálmur kallar fölsun er að stúlkan A hafi ekki vitað nafnið á kaþólska biskupnum þegar hún var 13 ára.
Og hafi áratugum síðar misminnt um nafn á þessum biskupi sem hún hitti líkast til aldrei sjálf.
Vilhjálmur er afar hneykslaður á fréttaflutningi og skýrslugerð um þessar ávirðingar.
Í bréfum til rannsóknarnefndarinnar segir Vilhjálmur meðal annars:
"...Persónulega, finnst mér sem sérfræðingi sem langmenntaður er í heimildarýni, að margt í frásögn meintra fórnarlamba séra Georgs sé út í hött..."
"...Ég minnist séra Georgs sem vinalegs og hægláts manns, sem þegar hann mátti vera að lék sér með okkur strákunum í fótbolta...""...en ég upplifði ekkert í háttum séra Georges sem mér þykir benda til pedastrianisma eða pedófílíu, nú þegar ég lít í bakspegilinn.
Engin börn báru heift í garð hans. Börn leituðu til hans í vandamálum sínum, því enginn þorði að tala við Margréti..."
Þá kýs Vilhjálmur að misskilja það sem rannsóknarnefndin segir um efni ásakanna frá því fyrir árið 1988.
Þar er rannsóknarnefndin að vísa til þess að engin gögn séu til um hvers efnis ásakanir hafi verið fyrir þann tíma.
Dæmi um það er að á árinu 1964 fór faðir stúlkunnar A á fund biskups til að ásaka sr. George.
Báðir eru þeir látnir, faðirinn og biskupinn, og ekkert er til skriflegt um efni þess sem þeim fór á milli.
(Og engin gögn eru til um viðbrögð biskupsins eða kaþólsku kirkjunnar við erindi föðursins).
Því segir rannsóknarnefndin um þetta atvik og fleiri:
"...Með vísan til alls ofangreinds verður rannsóknarnefndin að telja óvarlegt að álykta nokkuð um efni ásakana eða viðbrögð við þeim fyrr en kemur að árinu 1988..."
Þetta misskilur Vilhjálmur algerlega.
Og telur að rannsóknarnefndin sé að taka afstöðu til sannleiksgildis á framburði meintra fórnarlamba.
Og Vilhjálmur fullyrðir á bloggi sínu:
"...Nú, þegar í ljós er komið, að vart stendur steinn yfir stein í frásögnum meintra þolanda frá því fyrir 1988, sem hægt er að álykta um á rökrænan og vitrænan hátt, að nöfn þessa fólks sem setti fram ásakanirnar er alveg eins hægt að birta eins og nöfn meintra gerenda..."
Vilhjálmur ruglar því saman annars vegar;
hvers efnis ásökun föður A var við biskup - eða efni annarra hliðstæðra ásakanna og viðbragða við þeim-
og hins vegar ásökunum sem komu fram hjá hinum meintu fórnarlömbum sjálfum.
Hinn langmenntaði sérfræðingur í heimildarýni hefur áhyggjur af rökleysuhyggju.
Og þeim áhyggjum deili ég með vini mínum dr. Vilhjálmi.
Séra Georg fengi viðurkenningu páfa | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt 6.11.2012 kl. 19:29 | Facebook
Athugasemdir
Nú verður þú kallaður "Gyðingahatari" af Vilhjálmi jafnvel þó gyðingar komi ekkert við sögu. það er bara uppáhaldsorðið hans.
Óskar, 5.11.2012 kl. 23:23
Fer ekkert á milli mála að Séra Georg og Margrét misnotuðu stöðu sína óspart á margan hátt. Í gegnum fermingarfræðslu í kirkjunni í kringum 1980 beitti séra Georg hótunum, gegn þeim sem höfðu skriftað og voru nemendur í skólanum. Þ.e myndi ljóstra upp syndum þeirra sem höfðu skriftað ef þeir gerðu ekki eins og hann vildi ! Í sumarbúðum Riftúns neyddi Margrét barn til að éta sína eigin ælu, þar sem barnið hafði kastað upp í diskinn sinn , eftir að hafa verið þvingað til að borða ósaltaðan hafragraut, því næst barnið lokað inni í læstu rými þar sem enginn gat heyrt í því eða séð hvað gekk á. Örugglega toppfólk ! Hvernig veit ég þetta ? Jú barnið var ég !
Nemandi (IP-tala skráð) 6.11.2012 kl. 00:49
Það væri auðvitað eftir því Óskar.
Og ég sem þekki ekki einn einasta gyðing til að hata.
Viggó Jörgensson, 6.11.2012 kl. 01:25
Þú átt samúð mína alla Nemandi.
Hvaða skýringu hefur þú á því að sr. George hafi haldið Margréti þarna í vinnu í allan þennan tíma???
Viggó Jörgensson, 6.11.2012 kl. 01:27
Það er ómögulegt að segja hver ástæðan fyrir því er. Til þess að vita hversvegna, yrði að skoða forsögu Margrétar áður en hún kom til Íslands. Líklega hefur kaþólska kirkjan upphaflega tekið hana að sér í tengslum við harmleik þýskalands í seinni heimstyrjöldinni. Annars er ómögulegt að vita. Fermingarfræðsla þeirra ára sem ég var þarna var einmitt í höndum margrétar. En hvað svo sem fólk heldur um þessi mál, þá var margt frekar vafasamt sem átti sér stað ! Orðið einelti var ekki til á þessum árum en fjölda nemenda lögðu þau í einelti.
Nemandi (IP-tala skráð) 6.11.2012 kl. 08:16
En sérðu aðra skýringu en að hún hafi vitað eitthvað um hann.
Nógu slæmt til þess að hann gat ekki hreyft við henni?
Eða var hann í raun og veru svo vondur að honum finndist bara ágætt að hún sýndi þessa hörku?
Viggó Jörgensson, 6.11.2012 kl. 11:15
Ég kann enga skýringu á hegðun þessa fólks. Ef skýringin finnst, þá er hana líklega að finna í forsögu þeirra áður en þau komu til Íslands.
Þeim er hins vegar vorkunn sem og Kaþólsku kirkjunni og Landakotsskóla.
Nemandi (IP-tala skráð) 7.11.2012 kl. 00:22
Þakka þér Nemandi.
Viggó Jörgensson, 8.11.2012 kl. 02:14
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.