6.6.2012 | 14:26
Á að banna öspina í íbúagötum?
Eftir miðja síðustu öld tóku Íslendingar skógræktarkast sem betur fer vil ég segja.
Skógræktarmenn reyndu að finna heppilega trjátegund sem gæti vaxið hérlendis.
Meðal annars skoðuðu þeir ösp en blæösp óx víða í Evrópu og kotúnsösp (cotton wood) í Ameríku.
Hákon Bjarnason fyrrverandi skógræktarstjóri fann aspartegund í Alaska sem lofaði góðu hér á landi.
Öspinni tókum við fagnandi vegar dugnaðar hennar og harðgerðar.
Um páska árið 1963 gerði kuldakast sunnanlands, á einum sólarhring lækkaði hitinn yfir 20°C.
Þá drápust margar aspir og fleiri trjátegundir sem voru snemma byrjaðar að bruma.
Eftir það voru gerðar ýmsar kynbætur á þeim trjám sem eftir lifðu með frábærum árangri.
Sum asparklón, eða svokölluð yrki, þola mjög vel ýmis afbrigði af íslenskri veðráttu s. s. rok, skafrenning og salt.
Á þessum hlekk má sjá upplýsingar um mismunandi yrki af alaskaösp:
http://www.natthagi.is/Alaskaosp.htm
Einnig reyndu garðeigendur að rækta reynitré, sitkagreni, birkirunna og víðirunna svo dæmi sé tekið.
Þar hefur gengið á ýmsu vegna svepps og skordýra sem er önnur saga.
En í upphafi kunnum við ekki mjög til verka í trjáræktinni heima á bæ.
Litla sæta grenitréð sem sett var niður undir húsveggnum varð svo stórt að ganga varð í sveig fyrir húshornið.
Sums staðar voru garðeigendur hver með sína röðina af trjám sem gerðu það sama og grenið góða.
Á hluta lóðarinnar varð nánast myrkur með mosa á flötinni en ekki grasinu sem sáð var til.
Og bakgarðurinnn ekki annað en skuggalegt moldarflag sem sólin náði aldrei að skína á eftir laufgun trjánna.
Í annan stað er gróðurinn orðinn svo mikill að garðeigendur njóta ekki verunnar í garðinum vegna sólarleysis.
Ýmist vegna eigin gróðurs eða nágrannans.
Um skemmdir af völdum trjáa:
Algengustu skóprörin í eldri hluta Reykjavíkur eru steinrör sem eru sex tommur í þvermál eða um 15 cm.
Eftir fjörutíu til sextíu ár eru þessi rör ónýt þar sem raki hefur skolað ýmum efnum burt úr steypunni í þeim.
Þau hafa þolað hreyfingar í jarðveginum vegna mörg þúsund lítilla jarðskjálfta, auk frostáhrifa og jarðvegssigs.
Einn daginn dettur svo hluti af einhverju steinrörinu inn í sjálft sig.
Rætur trjáa vaxa að sjálfsögðu inn í slík rör og geta gert illt verra en þau eru ekki sökudólgurinn í sjálfu sér.
Stór tré þurfa mikinn jarðveg fyrir rætur sínar en oft vantar jarðveg þar sem stutt er niður á fast berg.
Í slíkum tilfellum liggja rætur ofarlega og geta lyft gangstéttum eða troðið sér inn í frostsprungna sökkla.
Allt á þetta við um öll stór tré en öspin hefur helst verið nefnd vegna vaxtarhraða hennar.
Skólprörin og sökklarnir voru sem sagt þegar ónýt þegar ræturnar fóru að vaxa þar inn.
Kostir og gallar trjáræktar í þéttbýli.
Því verður ekki neitað að gríðarlegt skjól er af trjágróðri í borgum og bæjum.
Auk þess sem þau fegra að sjálfsögu umhverfið. Einnig minnka trén mengun og framleiða súrefni.
Á vatnsverndarsvæðum gegnir trjágróður mikilvægu hlutverki við að binda vatn í jarðveginum.
Vantar nýjar reglur?
En glæsilegur árangur í skógrækt og trjárækt í borgum og bæjum er ekki eintóm hamingja.
Setja þarf ákvæði í byggingareglugerð um leyfilegt skuggavarp af trjám í húsgarða.
Ekki er lengur við það búandi að einhver geti myrkvað garð nágrannans í tillitslausri skógrækt.
Víða þarf að stytta tré eða fækka þeim og nú er svo komið að spyrja má:
Hvort hlutverki asparinnar sé ekki lokið sem brautryðjanda inni í vel grónum og skjólsælum hverfum.
Kannski ætti að leyfa ösp í 30 ár eftir að lóðum er úthlutað og þá sé skylt að fella þær.
Og hvað er að segja um hámarkshæð á öðrum trjám?
Einnig vantar stefnumörkun um trjárækt meðfram þjóðvegum.
Sjálfur er ég algerlega á móti skógrækt sem takmarkar útsýni frá veginum.
Það er drepleiðinlegt að aka um landsvæði þar sem ekkert sést nema skógur og heiður himininn.
Þar sem helsta tilbreytingin eru vegaskilti um að varast elgi eða aðrar skepnur.
Eða þá skilti þar sem stendur: Velkommen til Sverige, Velkommen til Norge o. s. frv.
Og áfram meiri skógur.
Hér er hlekkur á skemmtilega ritgerð um ösp sem götutré:
http://skemman.is/stream/get/1946/9275/24531/1/Lokaskjal_bs_Hulda_Davids.pdf
Aspir valda miklum usla í Breiðholti | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 15:17 | Facebook
Athugasemdir
Að hætti umhverfisofstækissinna vil ég láta banna íbúðagötur nálægt öspunum.
corvus corax, 6.6.2012 kl. 16:30
Bannaðu þá líka flugvöllinn.
Þar truflar flug orðið öspina sem vex upp í aðflugsstefnu yfir Öskjuhlíðina...
og einhverjir tréhestar neita að stytta þær....
Viggó Jörgensson, 6.6.2012 kl. 18:39
Mér skildist að það væri greni sem var verið að neita að stytta?
Hans Miniar Jónsson., 7.6.2012 kl. 12:39
Þakka þér Hans Miniar.
Ómar Ragnarsson talar um barrtré eða aspir. Ég verð að skreppa upp í Öskjuhlíð og skoða þetta.
En það er verið að deila um gróður af öllum tegundum víða um bæinn.
Man eftir deilu um trjágróður í Rauðagerði sem farið hefur þrisvar fyrir Hæstarétt í ýmsum tilbrigðum.
Öspin er oft há og beinvaxin, með laufkrónuna efst, þannig að hún gefur óheppilegt skuggavarp í næsta garð.
Grenitrén eru öðru vísi vaxin eins og þú veist auðvitað en eru orðin gríðarlega stór í sumum görðum.
Komin í stærð sem er skemmtileg úti í skógi en síður í litlum einkagarði þar sem þau myrkva stóran hluta.
Oft hef ég séð hvar fólk plantaði saman reyni og ösp til skiptis.
Reynirinn er oftast margstofna og ekki eins hár og jafngömul ösp eins og þú veist eins og aðrir.
Reynirinn er hins vegar víða orðinn svo hár að hann er mikill skuggavaldur.
Í þessum málum eru tilvikin eins mismunandi eins og þau eru mörg.
Að mínu mati eiga stór grenitré frekar að vera í Öskjuhlíðinni en í einkagörðum.
Þó ekki á stuttri aðflugsstefnu.
Viggó Jörgensson, 7.6.2012 kl. 13:10
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.