Bréf til Ögmundar um lögreglubullur

Heill og sæll Ögmundur.

Nú eru tveir kostir í stöðunni.

Sá verri er að þú verðir dæmdur í tukthús í náninni framtíð á grundvelli ráðherraábyrgðar að undangenginni mestu óöld síðan á sturlungaöld.

Hinn skárri er að þú hemjir þær lögreglubullur ríkislögreglustjóra sem hann sendir alltaf á sínum vegum, þangað sem íslenska þjóðin er að nýta grundvallarréttindi sín til lýðræðislegra mótmæla.

Þú hefur ekki tíma til að láta Ríkisendurskoðun gera stjórnsýsluendurskoðun á embætti ríkislögreglustjóra.

Þú verður að gera þá stofnun strax óvirka og leysa hana svo upp áður en hér skellur á ofbeldisalda með hörmulegum afleiðingum.

Rétt eins og fyrr eru þarna fullkomlega siðblindir og ábyrgðarlausir yfirmenn á ferð sem langar ekkert frekar en að láta unga og vaska lögreglumenn berja rækilega á almenningi.

Þeim er fullkomlega sama um þessa ungu lögreglumenn sem þeir leggja hiklaust í óþarfa og tilbúna hættu á því að verða örkumla, öryrkjar og láta lífið.

Á þessu berð þú persónulega ábyrgð en örlögum þínum ráða hins vegar lögbrjótar í lögreglubúningi íslenska ríkisins. Það eru einmitt gulldrengirnir sem áttu að verða herlögregla þeirra sem voru búnir að horfa of mikið á Bruce Willis.

Lög íslenska ríkisins hafa þeir lært með öfugum formerkjum. Eða þá að lög landsins næðu ekki til þeirra þegar þeir væru að æfa sig í fantaskap á almenningi.

Kannski hafa einhverjir setið með popkorn á Skúlagötunni þegar þeir sáu, í sjónvarpinu, þessa fanta sína berja vörubílstjóra á Vesturlandsvegi.

Um popkorn veit ég ekki en mannfjöldastjórnun hét þetta áhugamál einhverra í þá tíð.

Haldi þau vinnubrögð áfram sem ég sá á Austurvelli í dag er stórslys í uppsiglingu, fyrr en nokkurn grunar.

Reiðin er svo ofboðsleg að fái þessi ríkislögreglustjóraskríll að halda uppteknum hætti munu fá hundruð lögreglumanna mega sín lítils gegn múgssefjun tugþúsunda.

Sá er nú munurinn frá því fyrir tveimur árum að nú ætlar millistéttin í landinu að gera það sem þarf til að koma ríkisstjórninni frá. Og það mun gerast.

Guð lofi áður en einhver fer að smíða fallöxina. Frétti ég af slíku timburverki mun ég flytja til Noregs.

Þjóðin þarf frekar á því að halda að þú verðir í komandi ríkisstjórn Lilju Mósesdóttur en tugthúsinu.

Þú mátt engan tíma missa áður en þú bannar Haraldi Johannessen og hans mönnum að fara út úr húsi og fela Stefáni Eiríkssyni stjórnina á Austurvelli eftirleiðis.


mbl.is „Þar með var niðurlæging Alþingis fullkomnuð“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Athugaður heimildir þínar betur. Það er Stefán Eiríksson sem fer með stjórnina á Austurvelli

Rebus (IP-tala skráð) 2.10.2010 kl. 21:32

2 Smámynd: Ólafur Ingi Hrólfsson

Varla stjórnar Stefán aðgerðum sjálfur - ríkislögreglustjóri er þar að auki hans yfirmaður og ráðherra á toppnum.

En ágæti Viggó - svona stóryrði um lögregluna standast ekki skoðun - eftir lýsingum að dæma fóru þeir fram að mikilli aðgát - en eftir myndum að dæma voru akki allir í mótmælendahópnum á því að mótmælin ættu að fara friðsamlega fram - svo róaðist allt - ekki síst vegna rósemi yfirvegaðra lögreglumanna-

förum varlega í fúkyrði í garð lögreglunnar - þetta fólk sinnir erfiðu og nauðsynlegu starfi -

bið viljum ekki vera án þeirra.

Ólafur Ingi Hrólfsson, 3.10.2010 kl. 02:51

3 Smámynd: Viggó Jörgensson

Ég hef alltaf verið harður talsmaður lögreglunnar. Ég á lögreglunni ekkert nema gott að þakka.

Það var hins vegar fyrir allmörgum árum að okkur íslensku þjóðinni var sagt að setja ætti upp vopnaða sérsveit til að hafa til móttöku á flugræningum og hryðjuverkamönnum.

Ekkert var minnst á að þeim ætti að stefna gegn íslenskum almenningi eða þjóðinni.

Það er skemmst frá því að segja að uppeldið á þessum mönnum misheppnaðist gjörsamlega. Það hef ég persónulega séð.

Byssuleikur að amerískum hætti á sem betur fer ekki við hérlendis, frá degi til dags. Oftar en tölu verður á komið hafa þessir menn sem hlutu þjálfun og uppeldi undir þessum formerkjum verið látnir fara herfilega offari.

Aðgerðir þessara manna gegn vörubílstjórum á Vesturlandsvegi er mesta lögleysa sem ég hef séð á ævi minni.

Það eru þarna örfáir einstaklingar sem eru ofbeldismenn og þarf að hreinsa út.

Mér sýnist að það séu einhvers konar yfirmenn en síður lögreglumennirnir sjálfir. Ég hef persónulega lent í útstöðum við einstaklinga sem voru siðblindir ofbeldismenn, annar átti síðar biskupsskrúða hinn sérsveitargalla.

Það kom í minn hlut að hafa vit fyrir báðum áður en illa fór í samskiptum okkar.

Ég sé að ofbeldisstjórnendurnir hafa eitthvað lært síðan fyrir tveimur árum og ég þakka það Stefáni Eiríkssyni þar til annað kemur í ljós.

Það er meira að segja búið að kenna sumum orðið meðalhófsregla en hugarfar einhverra stjórnenda hefur hins vegar ekkert breytst.

Það eru þarna einstaklingar sem ekkert langar frekar en að láta berja í kjötkássu þessa krakka sem alltaf kveikja skátavarðeld sér til hita.

Þetta sá ég mjög vel á Austurvelli á föstudag. Lögreglan á að einbeita sér að þeim sem fóru svona með þessa krakka.

Það er bara til að hleypa illu blóði í venjulega borgara að vera að berja á okkar minnstu bræðrum undir merkjum ríkisvaldsins.

Lögreglan á að passa að engin ryðjist inn í Alþingishúsið og hafa vit á að láta þar við sitja.

Ef ekki er um eignaspjöll að ræða kemur lögreglunni í raun og veru alls ekkert við hvað almenningur gerir á Austurvelli.

Kveiki menn í eigin munum svo sem teppum, umbúðum utan af nestinu sínu eða öðru drasli á lögreglan á láta það afskiptalaust.

Stjórnarskráin mælir fyrir um rétt almennings til að koma saman vopnlaus til mótmæla. Lögreglan hefur engar heimildir til að hindra það.

Í kringum varðeldinn á Austurvelli var alger friður þar til ofbeldismennirnir í lögreglunni fóru að láta snapa þar slagsmál.

Yfirgnæfandi hluti lögreglumanna eru algerir öndvegismenn að mínu mati. Örfáar skemmdar kartöflur þarf að hreinsa út.

Viggó Jörgensson, 3.10.2010 kl. 19:54

4 Smámynd: Ólafur Ingi Hrólfsson

Þú ert óhress með að sérsveit sé notuð til þess að verja Alþingi - eða beitt gegn landsmönnum yfirleitt.

Eftir því sem lögreglumenn eru betur þjálfaðir ( sérsveitin er mjög vel þjálfuð ) þá eru minni líkur á mistökum - meiðslum eða því að einhver fari yfir strikið.

Þótt við búum hér ber okkur að fara að fyrirmælum lögreglu undir hvaða kringumstæðum sem er - fari lögreglan yfir strikið er hægt að kæra það eftirá

EN UNDIR ÖLLUM KRINGUMSTÆÐUM BER OKKUR AÐ FARA AÐ FYRIRMÆLUM LÖGREGLU.

Ólafur Ingi Hrólfsson, 4.10.2010 kl. 13:36

5 Smámynd: Ólafur Ingi Hrólfsson

GLEYMDI EINU - AÐ KALLA LÖGREGLUMENN BULLUR GERIR SKRIFIN EEEEEEEE

Ólafur Ingi Hrólfsson, 4.10.2010 kl. 13:37

6 identicon

Kæri Viggó.

Það er augljóst af skrifum þínum að þú ert reiður. Það er slæmt. Ég vona að þér renni reiðin. Eitt er kristaltært. Það var mannfjöldastjórnunarhópur Lögreglustjórans á Höfuðborgarsvæðinu sem var við löggæslu á Austurvelli bæði í janúar og núna á föstudaginn. Menn Stefáns hafa hlotið mikið lof fyrir frammistöðu sína. Þú ert því greinilega ekki sammála og ert mjög reiður. Sérsveit ríkislögreglustjórans kom til aðstoðar undir stjórn Stefáns í janúar en ekki á föstudaginn. Þetta getur þú fengið staðfest hvar sem er. Gerðu það endilega.

Á rauðavatni þegar að trukkabílstjórar voru lítillega gasaðir þá var þeim ítrekað, margoft gert algerlega ljóst að lögreglan myndi bregðast við því lögbroti að loka Þjóðvegi nr. 1. Lögreglunni ber skylda til að greiða götu almennings og því var þetta hegningarlagabrot sem Trukkabílstjórar frömdu með lokunum sínum ástæðan fyrir því að lögreglan kom á svæðið. Trukkbílstjórunum var síðan skipað á löglegan hátt að færa bifreiðar sínar. Það að brjóta lögin og kalla það mótmæli gerir verknaðinn ekki löglegan. Þetta sjá allir. Nema þú kannski. Að því að þú ert svo reiður.

Lögreglan kom á vettvang til að leysa málin friðsamlega eins og alltaf. Þegar allt annað er fullreynt þá hefur lögreglan heimild til að beita valdi. Trukkabílstjórum er einum um að kenna að piparúða var beitt gegn þeim.  

Grímur Bárðdal (IP-tala skráð) 4.10.2010 kl. 14:30

7 identicon

Minn kæri, gamli vinnufélagi.

Hef ávallt haft gaman að því að ræða við þig um heima og geima.

Þetta innlegg þitt er þér til minnkunar. Ég ætla ekki að eyða mörgum orðum í þetta en... á öðrum degi mótmæla í svokallaðri búsáhaldabyltingu var eldsneyti kastað á framhurðir Alþingishússins og eldur kveiktur. Markmiðið var að brenna anddyri og sjá húsið í logum. Ef ekki hefði verið brugðist við hefði þeim orðið kápan úr því klæðinu. Er það virkilega hroki þinn... þín skoðun að lögreglan eigi ekki að vernda slíkt hús. Ertu virkilega haldinn slíkum hroka að halda að við séum svo á barmi bjargbrúnar að ekkert sé heilagt og að foreldrar þínir og foreldrar þeirra hafi ekki lifað erfiða tíma, þinn tími og þær hremmingar nú kalli á slíkan glundroða að ekkert jafnist á við slíkt í fortíðinni.... því skuli ekkert vera heilagt? Þú megir ganga í skrokk á lýðræðiskjörnum foristumönnum þjóðarinnar... því þú hafir ekki sömu skoðun??

Ég er ekki sammála foristumönnum þjóðarinnar nú... og ég hef skömm á hvernig þeir hafa unnið vinnu sína sl 10 ár og komið okkur í vanda með skammarlega vitlausum ákvörðunum.... en ég hef þó vald á bræði minni. Ég kaus þá í það sinn en mun ekki gera aftur. Ég sé líka að þeir sem öskruðu á kosningu í kjölfar búsáhaldabyltingar, fengu þá kosningu, settust á valdastól og halda áfram vitleysunni þrátt fyrir fögur fyrirheit.

Eins og þú veist Viggó þá er ég lögreglumaður. Ég er ekki viljalaust verkfæri valdníðslumanna. Daginn sem ég fengi þá tilfinningu væri ég hættur.

Ég vil benda þér á að lögreglumenn stóðu við Alþingishúsið í venjulegum klæðum... þeir þurftu að skipta um klæðnað og fara í þykkari búninga með vörnum því grjót og glerflöskur var farið að lenda á þeim og þegar einn slasaður. Grjóti sem miðað var að þeim í sumum tilfellum. Mótmælendur voru búnir að yfirgefa Austurvöll, formlegum mótmælaaðgerðum lokið. Eftir stóð reitt ungt fólk sem vill aðeins glundroða... ekki ólíkan þeim sem þú settir í þessi orð þín að ofan.

Þú hryggir mig með barnslegum hugsunarhætti þínum í minn garð og minna samstarfsfélaga.

Kv I

Ingólfur Ingólfsson (IP-tala skráð) 6.10.2010 kl. 04:14

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband