2 mánuðir eru hámark skv. 11. gr. og það gildir um 26. líka. 45 dagar í 24. gr.

Það þarf ekki að leggja í langferðir til að sjá hver fresturinn er sem stjórnarskráin heimilar í svona tilfellum.  Stjórnarskráin kveður skýrt á um það sjálf.        Þ. e. vilji menn nota stjórnskipunarlögin eins og þau eru.  (Lex lata).

Setji menn upp pólitísk gleraugu og túlki stjórnarskrána eins og þeir vilja að hún sé, má komast að gagnstæðri niðurstöðu.  (Lex ferenda).

Sjá úr 11. grein stjórnarskrárinnar (3. mgr.):   (Lita- og leturbreyting VJ).

"...Forseti verður leystur frá embætti, áður en kjörtíma hans er lokið, ef það er samþykkt með meiri hluta atkvæða við þjóðaratkvæðagreiðslu, sem til er stofnað að kröfu Alþingis, enda hafi hún hlotið fylgi 3/4 hluta þingmanna …1) Þjóðaratkvæðagreiðslan skal þá fara fram innan tveggja mánaða, frá því að krafan um hana var samþykkt á Alþingi, og gegnir forseti eigi störfum, frá því að Alþingi gerir samþykkt sína, þar til er úrslit þjóðaratkvæðagreiðslunnar eru kunn. Nú hlýtur krafa Alþingis eigi samþykki við þjóðaratkvæðagreiðsluna, og skal þá Alþingi þegar í stað rofið og efnt til nýrra kosninga..."

24. grein stjórnarskrárinnar setur svo enn styttri frest eða 45. daga sem tekur af allan vafa um að 2. mánuðir séu algert hámark.   (Lita og leturbreyting VJ). 

"24. gr. Forseti lýðveldisins getur rofið Alþingi, og skal þá stofnað til nýrra kosninga, [áður en 45 dagar eru liðnir frá því er gert var kunnugt um þingrofið],1) enda komi Alþingi saman eigi síðar en [tíu vikum]1) eftir, að það var rofið. [Alþingismenn skulu halda umboði sínu til kjördags.]1)"

Samkvæmt framansögðu eru útilokað að komast að þeirri niðurstöðu að orðalagið "...svo fljótt sem kostur er..." geti þýtt meira en 2 mánuðir í skilningi 26. greinar stjórnarskrárinnar.

Í raun er hægt að fullyrða að fresturinn í 26. gr. gæti verið skemmri en 45 dagar með tilvísun til 24. gr.

Í 24. gr. gerir stjórnarskrárgjafinn ráð fyrir tímabili til kosningabaráttu vegna Alþingiskosninga.

Skv. 26. gr. er engri kosningabaráttu til að dreifa þannig að fresturinn  samkvæmt ofanrituðu er líklega ekki meiri en 45. dagar, eftirleiðis.  

Skortur á lögum um framkvæmd kosninganna gæti réttlætt frest, frá 45 dögum í 2 mánuði, í þetta fyrsta og eina skipti. 

Það er algert hámark að teygja orðalagið "...svo fljótt sem kostur er..." í 2 mánuði, sbr. 3. mgr. 11. gr.  

(Það má vera ósammála kennurunum ef maður getur rökstutt það.)


mbl.is Margra vikna frestun er brot á stjórnarskrá
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Páll Jónsson

Óvitlausar pælingar en ég get ekki séð að það sé beinlínis "útilokað" að lengra megi líða en tveir mánuðir. 

Páll Jónsson, 28.1.2010 kl. 11:52

2 identicon

Þú talar eins og þetta sé allt klippt og skorið.

26. greinin fjallar um þjóðaratkvæðagreiðslu um gildi laga frá Alþingi, eftir að forseti hefur synjað þeim samþykkis.

11. grein fjallar hins vegar um þjóðaratkvæðagreiðslu um brottvikningu forseta Íslands úr embætti, eftir tillögu um það frá auknum meirihluta Alþingis.

Greinarnar fjalla því ekki um þjóðaratkvæðagreiðslur sem eru til komnar með sama hætti. Þetta eru ólík ákvæði. Jú ef til vill er vísbendingu að finna í 11. greininni um tímamörkin í 26. grein. En hvað hefurðu fyrir þér í því að sami frestur eigi að gilda svart á hvítu?

Ég held að þú sért að taka of stórt upp í þig með því að segja að stjórnarskráin kveði skýrt á um þetta.

Jonni (IP-tala skráð) 28.1.2010 kl. 13:14

3 Smámynd: Viggó Jörgensson

Það að forseta sé vikið frá skv. 11. gr. eða að forseti synji því að rita undir lög er algerlega sambærilegt vandræðaástand. 

Bráðabirgðalög þarf að samþykkja innan 6 vikna frá því að næsta þing kemur saman.   Í undirbúningsgögnum frá síðustu breytingu á þeirri grein er rætt um brýna þörf á að ljúka óvissu sem leiðir af því hvort lögin muni gilda framvegis eða ekki.

Svo er þessi 45. daga frestur í 24. gr. og lengsti fresturinn er í 11. gr. 2 mánuðir í sambærilegu ástandi og hér um ræðir skv. 26. gr.  

Mér finnst ég bara ekkert taka stórt upp í mig.   Að lesa eitthvað annað út en stendur í stjórnskipunarlögunum sjálfum, undirbúningsgögnum þeirra og venjuhelgaðri framkvæmd - og í andstöðu við framangreint - það er að taka stórt upp í sig.      

Svo skulum við athuga að ýmislegt hefur þróast í löggjöfinni af því að það hefur verið almennt viðurkennt, s. s. ýmis konar venjur, stjórnskipunarvenjur, dómvenjur o. s. frv.  

Að hér megi líða meira en 2 mánuðir er bara alls ekki almennt viðurkennt og verður ekki.  

Viggó Jörgensson, 28.1.2010 kl. 15:28

4 Smámynd: Viggó Jörgensson

Réttarríkið má alls ekki gefa neinn afslátt af grundvallarreglum sínum.  Slíkt endar einatt með skelfingu.

Það er aldeilis fráleitt að það verði þolað að stjórnmálamenn geti teygt og togað stjórnarskrána hverju sinni eins og hentar.

Þá gæti næst hentað að fresta kosningum.  Senda Alþingi heim.  Boða bara ekkert kosningar aftur.  

Ekki er að efa að einhverjum valdherrum gæti hentað eitthvað af þessu, miðað við æskudrauma margra um hið fullkomna ríki.

Þeir sem teygja vilja og toga stjórnarskrána eru engu minna varasamir en þekktir fyrirrennarar þeirra.  

Adólf Hitler komst löglega til valda en fór svo að sveigja og beygja stjórnskipunina og enginn mótmælti eða hafðist að á meðan það var ennþá hægt. 

Sagan hefur kennt okkur að hún endurtekur sig í sífellu.   Síðasti harðstjórinn og einvaldurinn er ekki fæddur.  

Ef stjórnvöld ætla að brjóta stjórnarskrána þá geta þau sjálfum sér um kennt verði hér uppreisn eða bylting.

Tek það fram að ég var ekki þátttakandi í búsáhaldabyltingunni og verð heldur ekki með í þeirri næstu.   

Viggó Jörgensson, 28.1.2010 kl. 16:44

5 Smámynd: Páll Jónsson

Viggó: Mér þykir þú nú svolítið djarfur að segja aðra vera að túlka stjórnarskrána eftir eigin höfði þegar þeir segjast eiga í vandræðum með hugtakið "eins fljótt sem kostur er", en segjast sjálfur vera bara að fylgja texta hennar þegar þú tekur upp á því að lögjafna frá öðrum greinum hennar.

Þetta er ekki ósannfærandi hjá þér en varla svona klippt og skorið. 

Páll Jónsson, 28.1.2010 kl. 17:16

6 Smámynd: Viggó Jörgensson

Sæll Páll. 

Síst af öllum hef ég efni á að virða ekki skoðanir annarra í lögfræðilegum álitaefnum.  Að dómurum frátöldum mega lögfræðingar auðvitað vera í stjórnmálum.   Ég virði bæði skoðanir lögfræðinga, þegar þeir tala sem lögfræðingar annars vegar og þegar þeir tala sem stjórnmálamenn hins vegar.

Ég reyni hins vegar að átta mig á því hvor er að tjá sig, lögfræðingurinn NN eða stjórnmála(áhuga)maðurinn NN, þó að þetta sé sami einstaklingurinn. 

Hvað ég segi skiptir engu máli.  

En það sem stjórnarskrárgjafinn hefur þó sagt um tímafresti vísar okkur áleiðis.   

Á 113. löggjafarþingi mál nr. 312 var flutt frumvarp til stjórnarskipunarlaga um breyting á stjórnarskrá lýðveldisins Íslands, nr. 33/1944, með síðari breytingum. (Þau lög voru samþykkt, og á nýjan leik á 114 löggjafarþingi lög nr. 56/1991)

Í greinargerð með því frumvarpi sagði stjórnaskrárgjafinn meðal annars:  (Lita- og leturbreytingar VJ).

"...Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins...

...Um 4. gr.

Styttir eru frestir er varða þingrof þannig að nú má ekki líða nema einn og hálfur mánuður frá því að forseti Íslands gerir kunnugt um þingrof og þar til kosningar til Alþingis fara fram. Þessi frestur er nú tveir mánuðir frá þingrofi...

Um 5. gr.

...Í öðru lagi er Alþingi settur frestur í einn mánuð til að afgreiða frumvarp til staðfestingar á bráðabirgðalögum. Jafnframt hvílir sú skylda á ráðherra að leggja staðfestingarfrumvarp fram á fyrsta fundi Alþingis þegar það kemur saman að nýju eftir útgáfu laganna. Samþykki Alþingi ekki staðfestingarfrumvarpið falla lögin úr gildi og svo er einnig hafi þingið ekki lokið afgreiðslu frumvarpsins innan mánaðar frá því að það var lagt fram og því útbýtt á þingfundi... ... Mánaðarfresturinn er settur í því skyni að Alþingi taki, svo fljótt sem auðið er, afstöðu til bráðabirgðalaga sem gefin hafa verið út meðan það sat ekki að störfum svo að það réttarástand, sem bráðabirgðalög hafa skapað, standi sem styst eftir að löggjafarvaldið hefur tekið til starfa á ný...."

Á 112 löggjafarþingi hafði komið fram að stjórnarskrárnefnd hafði lagt til að frestur vegna bráðabirgðalaga yrði 3 mánaðir. Stjórnarskrárgjafinn stytti þann tíma niður í einn mánuð með ofangreindum rökum slíkt réttarástand skyldi standa sem styst. 

Í tilfelli bráðabirgðalaga gæti órói í þjóðfélaginu verið nokkuð alvarlegur eins og dæmin sanna og stjórn ríkisins í meira uppnámi en í tilfelli 11. gr. þar sem skammtaðir eru 2. mánuðir til kosninga.  Í tilfelli 11. greinar getur Alþingi og ríkisstjórn stjórnað landinu og sett lög með atbeina handhafa forsetavalds. 

Tilfelli skv. 26. er langalvarlegast en þar er kominn upp trúnaðarbrestur milli þings og þjóðar að mati forsetans, sem rökstyður mál sitt með vísan til skoðanakannana.  Með vísan til ofan- og framanritaðs væru það mikil firn ef stjórnarskrárgjafinn hefði skammtað meira en 45 daga í tilfelli 26. greinarinnar þegar hann talar um "eins fljótt og kostur er."  

Samkvæmt stjórnarskránni er mögulegur kostur að stofna til almennra alþingiskosninga innan 45 daga. 

Hvernig getur "eins fljótt og kostur er" verið lengri en það?  Eins og þú bendir á er verjandi að lögjafna frá 11. gr. en lengra verður bara alls ekki komist miðað við það sem lesa má úr textanum sjálfum eða greinargerðum.  

Stjórnarskráin kveður á um mest 2 mánuði í því tilfelli sem minnst alvara fylgir. 

Að fresturinn geti verið meiri í alvarlegasta tilfellinu en hinum tveimur er bara algerlega ótæk lögskýring skv. ofanrituðu.

Viggó Jörgensson, 28.1.2010 kl. 23:45

7 Smámynd: Viggó Jörgensson

Stjórnarskránin segir berum orðum í 11. grein að hægt sé að halda almennar kosningar eftir 2 mánuði.

Hvernig í veröldinni getur "eins fljótt og kostur er" verið lengra en 2 mánuðir í þessum skilningi.   

Viggó Jörgensson, 28.1.2010 kl. 23:47

8 Smámynd: Viggó Jörgensson

Því verður svo að halda til haga að í meðförum stjórnarskrárgjafans á 113. þingi endaði fresturinn til að samþykkja bráðabirgðalög í 6 vikum og var þannig samþykkt af bæði því þingi og því 114. og útkoman varð að stjórnskipunarlögum nr. 56/1991 til breytinga á stjórnskipunarlögum nr. 33/1944, sem eru uppistaðan í stjórnarskránni. 

28. gr. stjórnarskrárinnar er um bráðabirgðalög og sex vikna fresurinn er í 2. mgr. 

Hér að ofan er vitnað í greinargerðina sem gerði upphaflega ráð fyrir 1 mánaðar fresti.  

Viggó Jörgensson, 29.1.2010 kl. 00:18

9 Smámynd: Viggó Jörgensson

Já og Páll

orðalagið í 26. gr. stjskr.: "...svo fljótt sem kostur er..."   ég notaði orðalagið þitt í milliinnleggjum. 

Bkv. VJ.

Viggó Jörgensson, 3.2.2010 kl. 13:53

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband