Útsýni er verðmæti.

Ótrúlega lengi var útsýni ekki metið sérstaklega til hækkunar á fasteignamarkaði.

Áratugum eða heilli öld á eftir erlendum þjóðum vildu Íslendingar ekkert borga sérstaklega fyrir útsýni úr íbúðum sínum. 

Kannski af því að við höfum enga skóga og flestir njóta víðrar fjallasýnar í dagsins önn.

Dýrustu fasteignir í New York eru t. d. í kringum Miðgarð (Central Park) á Manhattan eyju.

Allra dýrastar eru útsýnisíbúðirnar frá suðri og austri þar sem búa margar af ríkustu ekkjum heims.

Þessar sem halda uppi einhverju fullkomnasta hátæknisjúkrahúsi veraldar.

Þar sem boðið er upp á hátæknilækningar, krabbameinsmeðferð og líffæraskipti fyrir gæludýr. En þetta var nú útúrdúr.  

Hérlendis er ekki ýkja langt síðan að byrjað var að verðmeta útsýni sérstaklega.

Á tíunda áratugnum var selt einbýlishús í Öskjuhlíð þar sem verðið á húsinu var metið kr 27 miljónir og útsýnið á kr 16 miljónir.

Húsið seldist á 43 miljónir sem kaupandinn lagði glaður út. 

Sama er í seinni tíð að segja um allar sjávarlóðir og alveg sérstaklega á Reykjavíkursvæðinu.

Þær dýrustu eru nú við Skerjafjörð og svipað gildir um fasteignir á sjávarlóðum á Seltjarnarnesi. 

Í einbýlishúsahverfum eru húsin við sjóinn, eða húsin með besta útsýnið, að jafnaði með hæsta fermetraverðið. 

Þá er vissulega eftirsóknarverðara að búa í húsum sem snúa í suðurátt. 

Fyrir kom að lóðum var skilað aftur á norðurhluta Seltjarnarness út af ísköldu sjávarrokinu af norðan.    

Því eru húsin við sjávarsíðuna, í suðurhluta Kópavogsbæjar, eftirsóknarverðari en þau sem snúa til norðurs við Fossvoginn sjálfan. 

Sjávarlóðirnar í suðurhluta Kópavogsbæjar snúa að Kópavoginum eins og norðurlóðirnar á Arnarnesi. 

Þær eru svo aftur síðri en þær sem snúa til suðurs að Arnarvoginum o. s. frv

Talandi um veðrið þá eru fasteignir að jafnaði dýrari ef þær snúa í halla til suðurs þar sem þá er bæði skjól og sól. 

Svo sem Laugaráshverfið, Fossvogshverfið og Suðurhlíðar Kópavogs.   

Á síðustu árum þekkjum við nýjar og dýrar fasteignir við Skúlagötu í Reykjavík og t. d. í Sjálandshverfinu í Garðabæ.

Þar er sérstaklega gert ráð fyrir eldra fólki sem í staðinn fyrir útivist í hraglandanum vill greiða talsvert fyrir fallegt útsýni. 

Og vissulega er einnig víða glæsilegt útsýni úr íbúðum í efri byggðum Reykjavíkursvæðisins. 

Útsýnisíbúðirnar eru dýrari og seljast fyrr.  

Hönnuðir hafa einnig breytt afstöðu sinni til útsýnis.

Fyrr á árum voru það sparnaðarsjónarmið sem réðu gluggastærð í húsum. 

Ekkert var sérstaklega gert í því að hafa glugganna stærri þó að konunglegt útsýni blasti við. 

Það hefur sem betur fer breyst því hitt var sannanlega synd. 

Íslendingar hafa hins vegar lengi haft þann sið að reyna að byggja sjúkrahús, og elliheimili, þar sem útsýnis nýtur sem víðast yfir. 

Það er áhersla sem verður að haldast.

  


mbl.is Ragnar Kjartans og Ásdís Sif selja íbúðina
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband