13.1.2009 | 16:54
Þá ættu fiskveiðar að vera frjálsar og vísa svo ábyrgð á sjómenn þegar miðin tæmast.
Alþingismenn eiga að setja reglur um mikilvægustu stoðir þjóðlífsins. Þeir einfaldlega brugðust þjóðinni á sviði bankamála. Þeirri ábyrgð geta þeir ekki vísað frá sér.
Þingið á að setja reglur til að flest fari á besta mögulega veg. Þær reglur eiga að byggjast á vísindaþekkingu og reynslu en ekki trúarbrögðum.
Hérlendis var ekkert hlustað á vísindamenn við stjórnun peningamála. Fylgt var trúarbrögðum eins og þeirri firru að algerlega frjáls markaður leiðrétti sig sjálfur. Reglur væru af hinu vonda.
Með sömu hugmyndafræði ætti að gefa fiskveiðar frjálsar. Gæsla fiskimiðanna og varnir gegn rányrkju yrðu í höndum útgerðarmanna og sjómanna allra landa. Þegar fiskimiðin væru uppurin myndu svo stjórnmálamenn vísa ábyrgðinni á sjómenn.
Heimsfrægir vísindamenn í hagfræði vöruðu íslensk stjórnvöld við mögulegri lausafjárkreppu og stærð bankanna, alveg frá árinu 2001. Þeir bentu á fjölmörg atriði sem væru hér á rangri leið.
Íslensk stjórnvöld treystu á trúarsannfæringu en ekki góðra manna ráð. Háskalegustu mistökin voru lækkun á bindiskyldu bankanna árið 2004.
Á bankahruninu bera stjórnmálamenn ábyrgð. Bankarnir er gengu auðvitað eins og langt og reglurnar leyfðu, rétt eins og útgerðarmaður veiðir eins mikið og stjórnvöld heimila honum.
Kreppan getur dýpkað | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 17:16 | Facebook
Athugasemdir
Já, trúarsannfæringin getur svo sannarlega slegið mennina blindu en ekki síður gert þá hlægilega! Enda er víða hlegið að þessum sértrúarsöfnuði sem hér situr við völd og kemst sennilega á endanum í heimsmetabókina fyrir stærð efnahagsklúðursins sem hann neitar að bera nokkra ábyrgð á. Mótmælendum hefur að einhverju leyti tekist að endurheimta æru þjóðarinnar en ráðherrarnir í núverandi ríkisstjórn hafa flestir selt guði auðs og valda æru sína og fá hana tæplega nokkurn tímann til baka!
Rakel Sigurgeirsdóttir, 14.1.2009 kl. 00:30
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.