Þökkum þér Össur.

Full ástæða er til að þakka Össuri Skarphéðinssyni utanríkisráðherra og öðrum starfsmönnum utanríkisþjónustunnar fyrir þetta afrek.

Samkvæmt upplýsingum breska sendiráðsins í Ankara er sjaldgæft að útlendingum sé sleppt þar úr haldi fyrir réttarhöld.

Veturliða Þór Stefánssyni lögfræðingi og sendiráðunaut í sendiráðinu í Kaupmannahöfn ber að þakka fyrir hans frammistöðu í málinu.

Sendiráðið í Kaupmannahöfn er sendiráð okkar gagnvart Tyrklandi og marka má af fréttum að þarna sé Veturliði á ferðinni í Tyrklandi. 

Hr. Sélim Sariibrahimoglu lögmanni og aðalræðismanni okkar í Tyrklandi ber auðvitað einnig að þakka þennan árangur.

Báðir þessir menn ættu að fá fálkaorðuna sé hún þeim einhvers virði.

Sjálfur er ég ekki í neinum vafa um að sérstök koma íslensks sendiráðunauts til Tyrklands, hefur vegið afar þungt í þessari niðurstöðu. 

Einnig kann að vera að hærra settir menn hér heima hafi haft samband við starfsbræður sína ytra en það fáum við eðlilega ekki að vita um. 

En í löndum þar sem stjórnkerfið er spillt, og vanþróað, er mikið snobbað fyrir erlendum sendimönnum og  ráðamönnum. 

Og það ber hiklaust að nota í þágu Íslendinga í slysatilfellum sem þessu. 

Engu að síður en mál Davíðs Arnar ekki hálfnað.

Íslenska utanríkisþjónustan þarf, fyrir hönd þjóðarinnar, að leggjast á viðeigandi aðila í stjórnkerfi Tyrklands.

Boða þarf tyrkneskum yfirvöldum að til réttarhaldsins komi háttsettir sendimenn og fjölmiðlamenn sem við munum bjóða til Tyrklands.   

Eða hvaðeina annað til Að leysa megi þetta mál með sýknu eða eingöngu greiðslu sektar en ekki fangelsisvist.

Og brottrekstri Davíðs Arnar úr landinu ef þeim liði þá betur.

Hefur einhver heyrt af því hvort búið er að handtaka sölukonuna sem seldi hinn meinta forngrip?

Leysi Össur þetta mál farsællega má hann, þegar hann hættir í pólitík, verða sendiherra okkar í Brussel.

Þar sem honum þykir jú skemmtilegast að vera.

Jóhönnu fær hann með sem túlk og sáttasemjara.  


mbl.is Davíð laus úr fangelsi í Tyrklandi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Eyjólfur Jónsson

Já og svo setja þeir eins mikla orku í að hjálpa langveika barninu i Bretland þar sem ekki er svoooo mikið af mútum.

Eyjólfur Jónsson, 14.3.2013 kl. 18:19

2 Smámynd: Viggó Jörgensson

Bara eins og að það séu að koma kosningar ?

Viggó Jörgensson, 14.3.2013 kl. 19:49

3 Smámynd: Sigurður Rósant

Tyrkneska ríkisstjórnin staðfesti árið 2010, að fornleifafræðingar hefðu fundið skrokk arkar hans Nóa við fjallið Ararat. Svo nú mega túristar passa sig að setjast ekki á neina lurka sem gætu gefið þeim flís í rass, sem greindist við tollaeftirlit sem flís úr skrokki arkarinnar gömlu. Það hlýtur að liggja ævilangt fangelsi fyrir slíkan glæp.

Hann slapp vel Daninn frá Norður-Jótlandi sem sumarið 2004, fann fallegan stein í flæðarmálinu sem reyndist vera yfir 100 ára gamall og taldist því til fornminja. Varðhald í 4 daga en látinn laus gegn tryggingu og slapp heim til síns Molbúalands.

En ef einhverjir geta samið við tyrki, þá eru það einna helst Danir af Norðurlandaþjóðunum. Svíar eru ekki í Nató, svo trúlega hafa tyrkir haldið að Íslendingurinn hafi verið Svíi. Spurning hvar tyrknesk yfirvöld flokka okkur Íslendingana.

Ég myndi reyna að flýja land ef ég væri í sporum Davíðs Arnars.

Sigurður Rósant, 14.3.2013 kl. 21:46

4 Smámynd: Viggó Jörgensson

Flúði þessi Jóti frá Tyrklandi?

Við getum ekki farið að ráðleggja neinum að brjóta lög, hvorki í Tyrklandi eða annars staðar.

Og ef einhver er gripinn við að flýja land, þá er viðkomandi virkilega í merinni.

Skrýtið samt að láta fólk laust án tryggingar.  

Gera yfirvöld kannski ráð fyrir flótta? 

Vilja þau losna þannig við málið?

.

Viggó Jörgensson, 16.3.2013 kl. 02:11

5 Smámynd: Sigurður Rósant

Það er hvergi sagt beinum orðum, að Jótinn hafi flúið Tyrkland eftir að hann var látinn laus gegn tryggingu, en ég get vel ímyndað mér að Jótinn hafi nú ekki verið að ómaka sig við að mæta í réttarhöld yfir smásteini sem hann fann í flæðarmálinu.

En í flestum löndum eru í gildi "ólög" sem virka hamlandi og lamandi á fólk. Ein leiðin til að fá þeim breytt, er að brjóta þau til að sýna fram á fáránleika þeirra. Gott dæmi var tilraun Davíð Schevings Thorsteinssonar til innflutnings á bjór 15. des 1979, þrátt fyrir margar tilraunir Alþingis til að hnekkja "bjórbanninu". Hann bar fyrir sig jafnræðisreglunni og eftir það var áhöfnum flugvéla ekki lengur einum heimilt að kaupa bjór í Fríhöfn Keflavíkurflugvallar, heldur öllum almenningi.

Myndir þú taka áhættuna og sitja kyrr í Tyrklandi og bíða dóms eftir ásakanir um að hafa gert tilraun til að smygla útskornum marmarasteini úr landi? Og þú færð enga möguleika á að leiða getum að því að þessi steinn sé kannski ítalskur og skorinn út af börnum í barnaþrælkun fyrir örfáum árum?

Treystirðu því virkilega, Viggó, að Davíð Örn sleppi jafn vel og Davíð Scheving?

Sigurður Rósant, 18.3.2013 kl. 14:02

6 Smámynd: Viggó Jörgensson

Þetta er hárrétt sem þú segir um "ólög" þar sem andstaðan er oft kölluð borgaraleg óhlýðni.

Nýlega var hin heimsfræga Bandaríkjakona Rósa Parks í fréttum.

Svarta konan sem neitaði að standa upp fyrir hvítum manni í strætisvagni, eins og þú veist auðvitað.

En í slíkum tilfellum er fólk mjög meðvitað að brjóta lögin til að mótmæla tilvist þeirra og framkvæmd.

Ég tek ekki þá áhættu að fara til landa þar sem ég tel að yfirvöldum, eða ástandinu í landinu, sé ekki treystandi.

Eða til landa þar sem yfirvöld eru ekki nægjanlega fyrirsjáanleg í lagaframkvæmdinni.

Í réttarríkum er skylt að birta almenningi lögin.

Eitt af einkennum réttarríkja er að þau leggja sig fram um að kynna almenningi þær lagareglur sem gilda.

Og alveg sérstaklega þær reglur sem eru óvenjulegar eða leggja þarf sérstaka áherslu á við tilteknar aðstæður.

Í flestum ríkjum heims eru ýmis lagaboð eða bönn, í umferðinni, birt vegfarendum á umferðarskiltum yfirvalda.

Kannski er þetta algengasta og einfaldasta dæmið um birtingu á lagareglum.

Almennt er ferðamönnum á Vesturlöndum kunnugt um bann við vopnaburði í farþegaflugi.

Hins vegar almennt ekki kunnugt um að það sé fangelsissök að kaupa minjagripi af innfæddum.

Það er frekar nýleg staða þó að flestum sé ljóst að almennt sé reynt að vernda söguleg menningarverðmæti.

Það er fullkomlega skiljanlegt að þjóðirnar við Miðjarðarhafið vilji vernda fornleifar og náttúruperlur landa sinna.

Það yrði óbætanlegt tjón ef merkustu minjar mannkynsins yrðu eyðilagðar.

En tyrknesk yfirvöld hafa greinilega brugðist í að kynna stranga verndarlöggjöf landsins.

Þetta eru geysistrangar refsingar miðað við það sem ferðamenn eiga almennt að venjast.

Að mínu mati ætti að vera skylt að kynna reglurnar í öllu farþegaflugi til Tyrklands og í öllum skoðunarferðum þar.

Auglýsa þær rækilega á flugvöllum, höfnum, hótelum og farþegaskipum.

Og einnig ætti að mælast til þess að allar viðkomandi ferðaskrifstofur kynntu reglurnar svo tryggt sé.  

Ég leit inn á heimasíður nokkurra ferðaskrifstofa sem selja ferðir til Tyrklands.

Í ferðaleiðbeiningum þeirra sá ég hvergi aðvörun um að bannað væri að kaupa fornminjar.

Né að minjagripir gætu mögulega talist vera fornminjar sem varðaði fangelsisvist að kaupa.

Og ég hafði talsvert fyrir því að finna þessar reglur á heimasíðum tyrkneskra yfirvalda.

Sums staðar kemur þetta bann mjög skýrt fram ásamt leiðbeiningum.

En alls ekki á öllum stöðum þar sem fjallað er um tollareglur yfirvalda. (Leyfilegt áfengi, tóbak o.s.frv.)

Það virðist vanta einlægan vilja "réttarríkisins" að forða borgaranum frá því að brjóta lagareglur í ógáti.

Í þessu tilfelli hinum erlenda borgara sem kemur til Tyrklands sem venjulegur ferðamaður.

Og undarlegt að refsivarslan skuli einungis snúa að útlendingnum í þessu máli. 

Er hugsunin sú að við séum forríkir fornmunasafnarar sem reyni að kaupa upp þjóðargersemi af bláfátækum landsmönnum?

Nákvæmlega engar vísbendingar hafa borist okkur um að tyrknesk yfirvöld hafi handtekið konuna sem seldi marmaraplötuna.

Sölukonuna sem fullyrti, sérstaklega aðspurð, að þessa marmaraplötu, mætti hún selja og ferðamaðurinn kaupa.

Og ferðamaðurinn trúði, úr því að yfirvöld umliðu konunni að stunda sölustarfssemi sína þarna við fornminjastaðinn.

Leiðbeiningar með lagareglunum segja að ferðamenn geti aflað sér vottorðs yfirvalda séu þeir ekki vissir í sinni sök.

Aflað sér vottorðs ef maður sé ekki viss um að hinn keypti minjagripur sé eftirlíking heldur alvöru fornmunur.

Það er nefnilega þannig í réttarríkjum, eins og við þekkjum þau, að ef að þú ert ekki viss um hvað er leyfilegt.

Og þú vilt komast hjá því að fremja, þriðja stigs ásetningsbrot, þá bjóðast yfirvöld til að leiðbeina þér.

Réttarríkið leggur sig fram um að benda þér á lagareglur og hvar þeirra skuli leitað. 

Öll lög, reglugerðir, bindandi stjórnvaldsfyrirmæli eru öllum aðgengileg, t. d. á netinu.

Sömuleiðis dómar og ýmis konar úrskurðir á vegum stjórnvalda.

Opinberar stjórnsýslustofnanir leitast við að upplýsa um lagareglur er varða þeirra starfssvið.

Og þær eru skyldugar til að leiðbeina almenningi án endurgjalds.  

En þarna úti í Tyrklandi virðist vera misbrestur á að kynna þennan möguleika, á vottorði,  fyrir ferðamönnum.

Að þeim byðist að leita til yfirvalda ef þeir væru ekki vissir í sinni sök.

Þannig að á endanum treysta einhverjir á að minjagripurinn verði, í versta falli, tekinn af þeim á flugvellinum.

Norðurlandabúar vita vel að þeir mega búast við fangelsisvist séu þeir gripnir með fíkniefni í hvaða landi sem er.

En þeir búast ekki við að kaup á öðrum varningi geti varðað þá fangelsisvist nema augljóslega sé um þýfi að ræða.

Komið hefur fram í fjölmiðlum að hér heima á Íslandi geti fornmunasmygl varðað allt að 3 ára fangelsi.

Það er fráleitur samanburður þar sem hér yrði einungis sektað fyrir smávægilegt brot.

3 ára fangelsisvist er fyrir þá sem yrðu gripnir í ferjunni Norrænu á fullum flutningabíl af því merkasta úr Þjóðminjasafninu.

Ég get sem sagt ekki svarað því hvað ég gerði í svona aðstæðum nema að ég kem mér ekki í þær.

Ég er nú vanur að treysta á að yfirvöld hagi sér löglega og skynsamlega.

Og vanur því að geta að öðrum kosti mótmælt kröftuglega, sem ég svíkst yfirleitt ekki um, þar til viðkomandi bæta sig.

Þar til annað kemur í ljós ætla ég tyrkneskum yfirvöldum að haga sér skynsamlega í þessu máli.

Viggó Jörgensson, 22.3.2013 kl. 21:22

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband