8.2.2013 | 00:22
Brotlegir auðmenn njóta forréttinda í réttarvörslukerfinu.
Íslensk löggjöf um fjármálabrot tekur mið af brotastarfssemi liðinnar aldar.
Mannréttindasáttmáli Evrópu, sem Ísland er bundið af að þjóðarétti, tekur einnig mið af brotum fyrri tíma.
Á síðasta áratug hafa hins vegar komið til réttarvörslukerfisins risavaxnari mál en löggjöfin miðaðist við.
Vísvitandi földu brotlegir fjármálamenn slóð sína í gífurlegri flækju fyrirtækja og eignatengsla.
Í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis má líta mynd af krosseignatengslum úr íslensku atvinnulífi.
Myndin er svo flókin að til samanburðar eru stjörnumerkin í Vetrarbraut okkar ómerkilega einföld.
Markmið fjármálamannanna voru aðallega tvíþætt.
Annars vegar að blekkja fjármálamarkaðinn og búa til bókaða viðskiptavild sem engar eignir voru á bak við.
Þannig gátu fjármálamennirnir, með hverri fléttunni eftir aðra, fengið meiri og meiri lán til þess að kaupa alltaf fleiri og fleiri verðlítil fyrirtæki.
Og alltaf reyndu þeir að klípa út úr hverjum snúningi eitthvað fyrir sjálfa sig að stinga undan en til þess var jú allt spilverkið.
Hins vegar var markmiðið að gera yfirvöldum ómögulegt að hefja á þeim einhvers konar rannsóknir.
Óheiðarlegir fjármálamenn höfðu sumir auð fjár til að nýta sér langskólamenntaða sérfræðinga við að fela brotaslóð sína.
Með því að láta hana liggja um Ísland, önnur lönd og gerviríki bankaleyndar og stjórnleysis.
Legði einhver ríkisstofnun íslensks almennings, af vanefnum, í að rannsaka og reyna að koma höndum yfir brotastarfssemina.
Stóð ekki á brotlegum auðmönnunum að ausa út í málsvarnir.
Allt til þess að málsmeðferðin færi fram úr lögmæltum tímamörkum og yrði brot á mannréttindasáttmála Evrópu.
Þegar best hefur tekist til hjá lögmönnum fjármálamanna hafa þeir náð að kenna héraðsdómurum réttar lögskýringar.
Og andstætt ákvæðum laga um meðferð sakamála fengið að leggja fram fjórar greinargerðir í sama málinu, auk bókanna.
Venjulegur brotlegur launamaður verður að fara eftir ákvæðum laganna og getur einungis fengið að leggja fram eina greinargerð.
En málsmeðferðarlögin eru jú sniðin að brotum venjulegs fólks og fjármálabrotum fyrri tíðar.
Stórlega brotlegur launamaður fer í fangelsi af því að máli hans lýkur innan tímamarka laganna og mannréttindasáttmálans.
Stórlega brotlegur auðmaður sleppur við fangelsi af því að hann hafði ráð á að láta sérfræðinga flækja málin sín frá upphafi til enda.
Ranglega taldi Hæstiréttur sig nauðbeygðan til þess að skilorðsbinda fangelsisvist hinna ákærðu í þessu máli.
Af því að rannsókn og dómsuppsaga hefði tafist af sökum sem ekki væri ákærðu að kenna.
SEM ER RANGT. Öll hin umfjallaða brotastarfsemi var klæðskerasniðin tilraun til lagasniðgöngu svo ekki sé meira sagt.
Hér er réttlætinu snúið á haus eins og stundum áður þegar í hlut eiga Jón og séra Jón.
Hæstiréttur skammaði rannsóknaraðila og saksækjendur fyrir að halda sig ekki við tímamörk.
Hæstiréttur skammaði héraðsdómara fyrir að heimila bókanir og fjórar greinargerðir í málinu.
Í kröfum sínum í málinu heimiluðu auðmennirnir Hæstarétti að dæma hvað hann vildi.
Nema að dæma þá í óskilorðsbundna fangelsisvist.
Og að sjálfsögðu hlýddi Hæstiréttur.
Nema hvað.
------------------
Almennt er svona löng málsmeðferð brot á mannréttindasáttmála Evrópu.
En ákvæði hans eru úrelt að þessu leyti og öll önnur lagaákvæði sem eiga við sambærileg stórmál.
Það þarf að endurskoða það allt saman þannig að m. a. tímamörk séu önnur í svo stórfelldum og flóknum málum.
Ekki kemur til greina að slík almenn viðmiðunarmörk nái einnig yfir alþjóðlega brotastarfssemi stórfyrirtækja og auðmanna.
Sem vísvitandi flækja alla sína brotastarfssemi og tefja málsvarnir sínar allt saman hreinlega til að sleppa við réttvísina.
Okkur íslenskum almenningi er nákvæmlega sama þó að Ísland gerist brotlegt við óviðeigandi ákvæði mannréttindasáttmálans.
En dómstólar eiga ekki að hlaupa eftir almenningsálitinu á hverjum tíma.
En þeir eiga ekki að taka mið af lagaákvæðum sem augljóslega eiga ekki við samkvæmt eðli málsins.
Hæstiréttur lét ekki fjórar greinargerðir, í héraði, valda því að málsmeðferðin væri ógild.
Í reynd var Hæstiréttur að viðurkenna í verki að eðlilega eigi ákvæði laga um meðferð sakamála ekki alls kostar við í málinu.
En heykist svo á að vera sjálfum sér samkvæmur og viðurkennir ekki að þar með eigi tímamörkin heldur ekki við.
Þeir dómarar sem ekki skilja hvað eðlilegt er í svo stórum málum ættu að snúa sér að einhverju einfaldara.
Er minna tekur upp á höfuðið og því síður að þurfa að rifja það upp sem þeir áttu að læra í lögvísindanáminu í lagadeildinni.
Sumir slepptu því kannski og fóru aðeins í svokallaðar vísindaferðir sem entust þeim fram eftir vikunni.
------------------
Með því að krefjast þess að fá að leggja fram fjórar greinargerðir í stað einnar, auk fjölda bókanna.
Eru hinir ákærðu, og lögmenn þeirra, einnig í verki að viðurkenna.
Að öll ákvæði málsmeðferðarlaganna geti ekki átt við í stórum og flóknum málum.
Þeir kröfðust þess að fá aukin réttindi og leggja fram fjórar greinargerðir í stað einnar.
En vildu alls ekki, að sama skapi, auknar skyldur eins og þær að þá ættu tímamörk laganna heldur ekki við.
Svo snilldarlega sem þeim tókst að kenna héraðsdómurum að þeir ættu að þarna að fá þessi rýmkuðu réttindi.
Áttu þeir sem verjendur vissulega að þykjast ekki skilja að það kallaði á auknar skyldur.
Verra að dómarar Hæstaréttar þorðu bara að látast skilja helminginn og varla það.
Til öryggis tóku þeir á sig rögg og hreyttu hnýfilyrðum í héraðsdómaranna af djörfung og dug.
Heyri hæstaréttardómarar minnst á Mannréttindadómstól Evrópu fá þeir venjulega yfir höfuðið.
Og gruni þá að eitthvert málið fari þá leiðina er þeim einatt öllum lokið í málinu.
Þetta má glögglega sjá í fjölda hæstaréttardóma og sömuleiðis í þessum.
Er líða tekur að dómsuppsögu í Strassborg er leitt að vita af búksorgum við Arnarhvál.
En gott er að vita til; að hvaðan menn kjósa að leita sér náðar og skjóta þar fyrir lokunni.
Gerist þeir ei þaðan hraksmán erlendra valdsmanna.
Munur að heita Jón eða Jón Ásgeir | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 23:11 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.