Það þarf að skipta á nokkura ára frest um bita og gólfklæðningu.

Yfir 40 ár eru síðan bændur fóru að byggja fjárhús með taðkjöllurum.

Með dráttarvél er svo hægt að keyra inn í kjallara fjárhúsanna og moka þannig út taðinu i í dreifara.  

Algengast er að um hverja traktorshurð sé hægt að moka undan tveimur kindakróm með sameiginlegri jötu á milli krónna. 

Svo eru steinsteyptar stoðir á milli næstu tveggja króa og jötu.  Til að moka það bil fer traktorinn inn um næstu kjallaradyr fjárhúsanna og gengur svo á röðina.

Auk steinsteypustoðanna koma steyptir bitar og stál við sögu í uppbyggingu gólfsins.

Líta þarf eftir ástandinu á timbrinu og alveg sérstaklega tengingum við steinveggi þar sem járnfestingar vilja tærast hratt í sundur í þessu umhverfi. 

Og þá ekki síður ef burðarbitar og stoðir væru alfarið úr timbri. ´

Bæði timburburðarbitarnir og timburklæðningin í gólfi krónna slitna mikið af ágangi  og frágangi kindanna.  Auk þess bleytir drykkjarkerfið þeirra einnig timbrið. 

Bændur skipta um timburverkið, á nokkurra ára festi,  þegar þeir sjá að þess er orðin þörf en slys og óhöpp geta alltaf komið til. 

Í flestum tilfellum væri fallið ekki hátt niður á taðið en þarna hefur taðkjallarinn verið tómur.


mbl.is Fjárhúsgólf hrundi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Heyrðu hverslags vitleysa er þetta maður, kjallarinn undir fjárhúsum er oft kallaður áburðarkjallari en ekki taðkjallari, það er aldrei talað um tað í kjallara og alls ekki töðu bændur moka skít í dreyfarann en ekki töðu, þú veist greinilega ekki hvað taða er en það er fallega nýþurrkað hey komið í hlöðu.

Í flestum tilfellum væri fallið ekki hátt niður á töðuna en þarna hefur taðkjallarinn verið tómur. þessi settnig á sér ekki nokkra stoð í raunveruleikanum, áður en þú ferð að fræða aðra ættir þú að uppfræða sjálfan þig

mér er bara orðavant yfir þessari vitleysu myndi taka þessa færslu af síðunni þinni svo þú verðir þér ekki reglulega til skammar með vanþekkingu þinni.

tað og taða jesús minn hjálp er til svona fólk.

sælín (IP-tala skráð) 28.3.2011 kl. 00:12

2 Smámynd: Sigurður Haraldsson

Sæll já það er rétt hjá sælín þú ferð ekki með rétt orð og skýringar, tað er það kallað þegar kindur eru ekki ofnaá áburðarkallara og borið undir þær til að halda skítnum þurrum síðan er það stungið út og þá oft notað til að reykja kjöt og fisk þá er það kallað taðreykt hangikjöt, silungur eða lax.

Sigurður Haraldsson, 28.3.2011 kl. 00:32

3 identicon

ÆÆÆÆÆÆÆ :-(  Þetta fer í mig sveitamanninn:   Í fyrstalagi þá tala menn ekki um "taðkjallara" heldur haughús..eða einfaldlega bara kjallara  Kindaskítur verður ekki að TAÐI fyrr en kindurnar hafa gengið á honum í a.m.k. 1 vetur eða svo að hann treðst og þjappast saman og verður að TAÐI sem gjarnan er svo stungið út að hausti.  Svo segir þú "Með dráttarvél er svo hægt að keyra inn í kjallara fjárhúsanna og moka þannig út töðunni í dreyfara."  Maður mokar ekki töðu út úr haughusinu eða kjallaranum.  Taða er gamallt og gott íslenskt orð orð yfir hey....þ.e. heyið sem kindurnar éta.  Vissulega slæðist eitt og eitt strá með skítnum niður í gegn um grindurnar...en þá er heyið að sjálfsögðu ónýtt og er orðið að moði..moð er s.s. restin af heyinu eða töðuni sem kindurnar annað hvort leyfa (borða ekki) eða slæða niður í krærnar og treðst í taðið.. eða eins og í þessum húsum..endar niður í kjallara.  Í nánast öllum tilfellum þegar hús voru byggð á þessu tímabili (1975-1985) voru steyptir burðarbitar (dregarar) sem timburbitar (gólfbitar) voru lagðir ofaná (gjarnan 2x5 tommu bitar) og ofan á þá er nelgd timurborð næst jötuni en járnmottur út á sjálfu gólfinu.  Þessar mottur safna gjarnan í sig skít sem treðst (og verður að taði)...hleðst upp ...stíflar möskvana á mottunum sem veldur því að allt of mikil þyngd lendir á gólfbitunum miðað við burðarþol þeirra og gólfið brestur.  (og verður að taði) Veit ég um nokkur svona tilfelli og hef m.a. komið að endursmíði á heilu gólfunum eftir svona aðtburð.  Í flestum tilfellum er kjallarinn í einu lagi undir öllu húsinu án milliveggja þó svo að innkeyrsludyr séu undir hvert hús.

Gaui (IP-tala skráð) 28.3.2011 kl. 00:35

4 Smámynd: Viggó Jörgensson

Sigurður Haraldsson. 

Þú hefur kannski komið í fjárhús en stoppað stutt við. 

Hvað bændur eru það sem henda heyi í skítinn til að halda þurru undir fé sínu?   Nöfn og bæjarheiti takk. 

Kindurnar sjá sjálfar um að rusla heyi niður þegar þær eru að éta.  

Og af því að þú tekur undir með prónakonunni Sælín, mættirðu segja mér hvað það er nákvæmlega sem ég fer rangt með. 

Viggó Jörgensson, 28.3.2011 kl. 13:16

5 Smámynd: Viggó Jörgensson

Guðjón Rúnar

Ég var nú bara að reyna að vera kurteis en það fer mér ekki vel.

Talaði því um tað frekar en skít. Ég geri engan ágreining um um að tað sé skítur og heyleifar.

Ég þakka þér fyrir leiðréttinguna þar sem fallbeygði orðið tað vitlaust þannig að úr því varð töðuna í stað taðið og skrifa ég það á eigin ellihrumleika og syfju sem er engin afsökun en skýring.

Svo er dreifari ekki ýpsiloni eins og ég hafði þarna.

Hey verður ekki að moði við það eitt að vera komið í gólfið. En það verður vissulega að taði þegar það er komið saman við skítinn.

Moð er sá hluti heyfengsins sem kýr og kindur vilja ekki. Leifa eins og þú segir. Hrossin fengu það í minni sveit.

Fjárhús með kjöllurum voru fyrst byggð á sjöunda áratugnum.

Þau voru með svo grunnum kjöllurum að taka þarf upp grindurnar í krónum til þess að dráttarvél komist inní kjallarann til að moka út.

Þessi fjárhús sem þú talar um voru svo komin með dýpri kjallara um miðjan áttunda áratuginn.

Það voru steyptar stoðir og ofan á þær voru steyptir bitar (undir milligerðunum).

Það er út af súlunum sem dráttarvélarnar geta ekki beygt mikið þarna inni. Ég minntist ekkert á milliveggi.

Ofan á steinbitanna voru timburbitarnir fyrst 2x6“ seinna 2x7“ og dag nota margir 2x8“ eða meir.

Ef þú eða aðrir hafa verið að nota 2x5“ þá skil ég betur að eitthvað hrynji.

Ef þú kannt eitthvað í burðarþoli þá veistu að reikna á báðar víddir í þriðja veldi.

Ef þú hefur ekki tekið eftir steyptum stoðum þá skil ég þetta enn betur.

Sumir hafa sjálfir bætt við timburstoðum á milli steinstoðanna.

Stálmöskvaplöturnar komu ekki fyrr en í kringum 1980, þær voru alls ekki frá upphafi á þessum gólfum.

Gólfin eru ekki gefa sig út af þunganum í stálplötunum og skítnum eða taðinu í þeim.

Þau eru að gefa sig af því að timbrið er orðið fúið og morkið af langvarandi allt of háu rakastigi.

Í minni sveit má þetta því heita taðkjallari, skítakjallari eða bara kjallari.

Mig varðar ekkert um það þó að orðið taðkjallari sé bannað eða óskiljanlegt í þinni sveit.

Í minni sveit vísar orðið haughús til kjallara í fjósum og það sem þar er heitir mykja.

Þér er frjálst að kalla það kúaskít eða skít.

Ekki ætla ég að nota orðið haughús fyrir fjárhúskjallara.  Þeir sem ég þekki teldu þig tala um fjóskjallarann.

Ef þú smíðar fleiri gólf úr 2x5“ bið ég þig í Guðs bænum að fjölga þá stoðunum.

Það er ekki orðið of mikið til af gömlum sveitamönnum.

Viggó Jörgensson, 28.3.2011 kl. 14:41

6 Smámynd: Viggó Jörgensson

Svo er hér tilvitnun úr athugasemdunum hjá Sig. Haraldssyni.  

Eins og menn sjá talar Jón Logi um sauðatað... 

"...Fagranesbændur eru reyndar fjárlausir, en það er svolítið fé hjá Gumma í Faganeskoti. Og þetta er heljar fjárhús. Sjálfur hef ég lent í að missa gripi oní haughús, og það er ekkert gamanmál. Vægast er það þó ef það er sauðatað en engin mykjusúpa. Þessi kjallari er vélgengur og fallið því hátt. Eitthvað hefur því haugbunkinn dregið úr fallinu,því 3-4 metrar fara létt með að koma spikaðri kind á steypinum fyrir ljáinn. Þetta mun skýrast hjá þeim í dag. p.s. Var þarna verknemi fyrir margt löngu. Yndisleg sveit, gullfalleg náttúra og frábært fólk.   Jón Logi..."

Viggó Jörgensson, 28.3.2011 kl. 14:56

7 Smámynd: Viggó Jörgensson

Guðrún Sælín Sigurjónsdóttir.

Nú þarf minn sofandi sauður að biðja þig tvisvar afsökunar.

Fyrir að fallbeygja orðið tað vitlaust, ekki einu sinni heldur tvisvar. Það er orðið allt of langt síðan ég stakk út taði.

Svo þarf ég að biðja þig afsökunar á munnbrúki og skammast mín.  

Það er ekki skilyrði að taða sé kominn inn í hlöðu til að heita taða.

Að öðru leyti vísa ég á svar til Gaua.

Gangi þér vel með ullina, án töðu en sérstaklega taðs.

Og kærar þakkir fyrir skammirnar sem ég átti skilið. 

Viggó Jörgensson, 28.3.2011 kl. 18:16

8 identicon

Hahahh þetta er alveg glæsileg umræða. eiginlega alveg frábær, bið ég þig líka afsökunar á hneykslan minni öllum getur orðið á eins og sést hér á skrifum manna.

 ég kem úr sveit þar sem kindur voru hafðar á taði undir þær var ekki borið moð nema um sauðburðartíman ef rigningartíð var svo að sæmilega þurrt væri undir lömbum og ám það er ekki skemmtilegt að hirða um fé í blautum húsum allra síst á sauðburði. Faðir minn fékk oft að heyra að hann væri búskussi fyrir það að byggja ekki sín fjárhús með kjallara en nú til dag er betri heilsa á fé sem er haft á taði. ágæt ung stúlka sem afskaplega var pen í orði leiddist orðið skítadreifari og fannst orðið kúktætla mun betra orð. ég er sammála því að haughús sé undir fjósum en kjallarar undir fjárhúsum. Tað var nú notað fleira en til að reykja við fisk og kjöt eins og til dæmis til upphitunar. Best þótti að stinga út taðið þegar þornað var til eftir sauðburð og þá var það sem nota átti til ýmis brúks þurrkað, klofið og raðað í taðhlaðan hann var svo varin vatni meðan hann entist.

Regllega skemmtilegt að taka þátt í þessari umræðu.

skil samt ekki afhverju þú biður mig afsökunar á munnbrúki, mér er nær að halda að mitt væri að nefna afsökun.

mig langar að vita hvernig þú veist að ég er prjónakona með j (heheh) 

kv Sælín.

Guðrún Sælín Sigurjónsdóttir (IP-tala skráð) 28.3.2011 kl. 18:47

9 identicon

Já..það er rétt...ákaflega skemmtileg umræða.  Af 40 ára veru minni í sveit af þeim 40 sem ég hef þó lifað hef ég reynsluna bæði af gömlum taðhúsum sem byggð voru fyrir um 80 árum síðan og eru í fullu brúki enn..og svo einnig af nýrri húsum sem byggð voru fyrir 35 árum síðan eða þegar ég var u.þ.b. 9 ára gamall... byggð eftir þeim aðferðum sem ég hef áður komið inn á.  Þetta vandamál að gólfin gefi sig með þessum hætti þekki ég því vel...allt of vel..því miður en sem betur fer ekki með þessum afleiðingum sem í fréttini er lýst.  Við höfum tæmt þær krær í tíma sem hafa verið að gefa sig með þessum hætti.  Hefðum betur verið duglegri að sópa krænnar svo að slæðingurinn hefði ekki troðist í skítinn og að lokum myndað taðskán ofan á grindunum með tilheyrandi auka álagi svo maður tali nú ekki um fyrirhöfnina og kostnaðinn við þetta allt.  Eitt af þeim vorverkum sem gjarnan bíður mín er að stinga eins og eina stungu ofanaf úr gömlu húsunum áður enn sauðburðurinn hefst svo blessuð lömbin séu nú ekki að dansa í jötuni daginn út og inn og spilla heyinu...nóg fellur til af moðinu sammt sem þarf að burðast með út.   Nú eins er farið að hækka ansi mikið í kjallaranum undir nýrri húsunum þannig að ég held að ég verði að moka í eins og 5-6 dreifara og keyra á melana til uppgræðslu.  Gamli nallinn minn er svo lipur og  nettur að ég get keyrt um kjallarann þveran og endilangann án þess að súlurnar undir bitunum valdi mér neinum vandræðum..tek varla eftir þeim nema þá aðins að ég narti óvart  með skófluhorninu utan í þær í rökkrinu. . Kveðja úr sveitini að norðan.   Gaui.       

Gaui (IP-tala skráð) 28.3.2011 kl. 22:39

10 identicon

Ó hve margur yrði sæll // og elska mundi landið heitt //Mætti hann verða í mánuð þræll //og moka skít fyrir ekki neitt.

Gaui (IP-tala skráð) 28.3.2011 kl. 23:14

11 Smámynd: Viggó Jörgensson

Blessuð Sælín.

Svona sendibréfaskriftir í úr sveitinni hef ég ekki stundað í um 40 ár.

Reyni venjulega að þakka fyrir leiðréttingar án þess að vera með einhverja ólund.

Takist það ekki verður maður auðvitað að afsaka bæði vitleysuna og ólundina.

Þú ert greinilega fróðari um tað en ég. Mitt fólk tók mó í eldinn.

Lenti samt aldrei í móskurði en hins vegar í að stinga út sem var erfitt púð

og svo að skera torf upp úr mýri sem var það mesta puð sem ég komist í um mína daga.

Þú segir sjálf á andlitsbókinni að þú sér prjónakona á andlitsbókinni.

Besta kveðja sömuleiðis. 

Viggó Jörgensson, 29.3.2011 kl. 09:08

12 Smámynd: Viggó Jörgensson

Sæll Gaui.

Þakkir fyrir laust mál og bundið. 

Mér finnst þú lýsa búskapnum svona: 

      Melta rippur moðið, 

      mjóslegnar á taðinu. 

      Ekki var betra boðið, 

      taðan öll í svaðinu.  

Bestu kveðjur. 

Viggó Jörgensson, 29.3.2011 kl. 09:13

13 identicon

Þeir dagar eru sem betur fer nánast liðnir sem búast má við að maður heyri um horað illafóðrað fé einhverstaðar á landinu.  Heyin eru orðin svo  góð í dag.  Vel þurkað hey í rúllum kemur eins úr plastinu að vetri eins og það fór í plastið sumarið áður.  Heldur er það hitt að maður verður að passa sig að ofala ekki.  Annars á maður það á hættu að skjáturnar hreinlega kviðrifni af ofáti.  Það kemur fyrir.   

Svo má nú nefna eitt í allri þessari umræðu um blessað taðið.  Í þá gömlu góðu daga þegar hangikjötið var reykt heima til jólanna...þá var það okkar verk sem vorum of ungir til þess að einhvert gagn sem heita mætti væri af okkur í útstunguni seinni part sumars...það var að "hreykja taðinu" hlaða því upp á ákveðin máta svo að það yrði mátulega þurrt þegar að reykinguni kæmi.  Kv. Gaui

Gaui (IP-tala skráð) 30.3.2011 kl. 00:33

14 Smámynd: Viggó Jörgensson

Það er verst ef músagreyin naga gat á heyrúllurnar. 

Heyrði af einhverjum vandræðum í ostagerð út af einhverjum nýtilkomnum örverum

sem þá gætu æst sig upp í heyinu.   Þ. e. a. s. er kýrnar fengju svona rúllur.

Og og að rollurnar létu lömbunum af því sama. 

Eða hvað, ég man ekki hvort þetta er einhver myglusveppur eða bakteríur. 

Mér skilst reyndar að betri bændur láti slíkar rúllur frekar í hrossin.  

Það hefur þá kannski ekki ringt mikið á þessa taðhrauka ykkar frá hausti til jóla. 

Er ekki viss um að þeir hefðu verið sérlega þurrir hér sunnan og vestanlands?  

Viggó Jörgensson, 30.3.2011 kl. 11:10

15 identicon

Á hvað landi býrð þú eiginlega Gaui, ég heyri alltof oft af illa fóðruðum skeppnum, það þarf að heyja til að skeppnur fái fóður og svo þarf líka að nenna að fóðra skeppnur, mér finnst já alltof oft koma harmsaga um vanfóðrun í fréttum og því miður þekki ég til á fleirum en einum og fleirum en tveimur stöðum þar sem vanfóðrun er viðvarandi, Ekki er langt síðan að maður var kærður fyrir vanfóðrun á hestunum sínum í annað sinn og þeir voru svo illa haldnir að aflífa þufti, nú er þessi sami maður komin með skeppnur í þriðja sinn og þær eru á vonarvöl, hvað gengur matvælastofnun til að sekta svona "bændur" um fáein þúsund og svo fá þeir hinir sömu strax leyfi til skeppnuhalds. Að maður tali nú ekki um sóðaskap, dauða hesta og hunda í kringum hús og bæi, jú svona fólk fær fáein þúsund í sekt og svo heldur það þessum óþverragangi áfram, svona liði á að stinga í steininn upp á vatn og brauðskorpu vita hvort því líður vel á eftir eða bara hvort það hreinlega drepst, ef þú gefur nágranna þínum á kjaftinn áttu jafnvel yfir þér háa sekt og jafnvel fangelsi en ef þú drepur skeppnurnar þínar úr hor þá er það bara í lagi, segi hér og skrifa innan við hundrað þúsund krónur er sektin sem þetta óþverra pakk fær.

Sælín Sigurjónsdóttir (IP-tala skráð) 1.4.2011 kl. 11:47

16 Smámynd: Viggó Jörgensson

Gaui

Vantar ykkur ekki forðagæslumann í ykkar sveit?

Í leiðinni væri Sælín auðvitað ullarmatsmaður.

Finni hún færilús í ullinni yrði hún svo líka baðstjóri.

En án gamans þá myndi ég í þínum sporum fara að fela horgemlinganna ef Sælín liti við hjá þér í fjárhúsin.

Eða segja strax að þú hafir tekið þá í fóðrun, daginn áður, fyrir nágrannann,

en sá sé óttalegur búskussi.

Og vilji Sælín finna nágrannann í fjöru, segir þú hann farinn suður.

Hann hafi flosnað upp í morgunsárið

Viggó Jörgensson, 7.4.2011 kl. 11:03

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband