Óheimilt að afhenda saksóknara Alþingis gögn Rannsóknarnefndar Alþingis.

Það hlýtur að teljast vera verulega vafasamt að saksóknarar Alþingis séu að biðja um gögn Rannsóknarnefndarinnar sem nú eru vistuð á Þjóðskjalasafni.

6. málsgrein 14. greinar

laga um rannsókn á aðdraganda og orsökum falls íslensku bankanna 2008 og tengdra atburða, nr. 142/2008

er svohljóðandi:

      "...Ekki er heimilt að nota upplýsingar sem einstaklingur hefur veitt nefndinni sem sönnunargagn í sakamáli sem höfðað er gegn honum."

Svokölluð almenn lögskýring er að túlka þessa setningu eftir almennum málskilningi. 

Setninguna ber að skilja eins og allir þeir er staðist hafa íslenskt barnapróf í lestri, skilja hana.   

Í greinargerð sem lögð var fram með lögunum er ekki að sjá að flóknari lögskýringar eigi við.   

Svo fortakslaust er þetta bann orðað að ekki verður séð að svokallaðar þrengjandi eða rýmkandi lögskýringar eigi við. 

Lögin eru auk þess sérlög (lex specialis) gagnvart öllum öðrum almennum lögum og því rétthærri en önnur almenn lög sem kunna að vera í andstöðu við ofangreinda lagagrein. 

Rannsóknarnefnd Alþingis fékk geysilegar heimildir til að afla gagna og krefja menn sagna.  

Leynd og þagnarskyldu, samkvæmt fjölda laga, var vikið til hliðar. 

Einmitt þess vegna var mönnum veitt þessi friðhelgi gagnvart saksókn í staðinn.   

Það sem menn voru að segja nefndinni, var í trúnaði, nema það sem Rannsóknarnefndin sjálf, setti í skýrslu sína til Alþingis. 

Eina undantekningin á ofangreindu banni var ef Rannsóknarnefndin hefði á starfstíma sínum vísað sakamáli til Ríkissaksóknara.  

Það gerði hún ekki í tilfelli Geirs Hilmars Haarde. 

Saksóknarar Alþingis segjast alls ekki getað höfðað mál á hendur Geir Hilmari Haarde nema fá að nota gögn Rannsóknarnefndarinnar.

Lögin sjálf segja að saksóknarar megi alls ekki fá gögnin til að nota þau til að saksækja Geir Hilmar Haarde.  

Stjórnarskráin bannar setningu á afturvirkum íþyngjandi lagaákvæðum svo sem á sviði skatta- og refsiréttar.  

Hefði verið ætlunin að ofangreint ákvæði ætti við um ráðherra, hefði verið algert fortakslaust skilyrði að það stæði berum orðum í lögunum.  

Það er því ekki hægt að breyta ofangreindri lagareglu nú, eða síðar, gagnvart Geir Hilmari Haarde né öðrum sem saksóttir verða síðar.   

Saksóknarar Alþingis verða ósköp einfaldlega að rannsaka mál á hendur Geir Hilmari Haarde eins og gögn Rannsóknarnefndar Alþingis séu ekki til.  

Auk þess er algerlega furðulegt og í rauninni hneyksli að opinberir saksóknarar skyldu yfirleitt fara fram á afhendingu þessara gagna. 

Hrein lagasniðganga af ásetningi.  Hvert er íslenskt réttarfar komið?     

Enn furðulegra þó að héraðsdómur skyldi ekki henda málinu út af sjálfsdáðum (ex offico) heldur úrskurða saksóknurum í vil.

Að Geir Hilmar Haarde eigi ekki aðild að málinu til að mótmæla lögleysunni.  

Í hvaða ský er dómstóllinn að lesa?

Ekki er hægt að finna þann úrskurð á heimasíðu Dómstólaráðs og því getum við ekki glöggvað okkur á lagarökum í málinu.   

Kannski skammast dómarinn sín og vill ekki láta úrskurðinn á netið.   

Eins og kunnugt er á almenningur í réttarríkjum að geta fylgst með störfum dómstóla svo að þeir komist ekki upp með að dæma eftir öðru en lögunum. 

Að svo búnu er oss algerlega óskiljanlegt í hvaða lögfræðilegu skógarferð saksóknarar og héraðsdómur eru.  

Hvort niðurstaða héraðsdóms er byggð á stjórnmálaviðhorfi dómarans, hefndarhug hans vegna lækkaðra launa og skertra eftirlauna, réttarvitund meirihluta Alþingis, eða viðurkenndri íslenskri lagalegri aðferð; er leyndarmál eins og í ráðstjórnarríki.

Eða er Ísland kannski orðið það? Mega bara ráðherrar sjá lagarökin fyrir þessari niðurstöðu?

Að hinn pólitíski Landsdómur eigi svo að skera úr um ágreiningsefnið breytir málinu svo í algeran farsa.    

Réttarfarslegt hneyksli?  Já það stefnir allt í það. 

Hafi gamla Ísland verið slæmt er það nýja þó verra.

Alla ævi hef ég borið fyllsta traust til íslenskra dómstóla. 

Þar til nú.  Þessa stundina er það ekkert.  

Nú líður mér eins og dómarar séu skíthræddir þrælar framkvæmdavaldsins hverju sinni. 

Kannski breytist það aftur þegar ég fæ að sjá lagarök héraðsdóms. 

En þau verða þá að vera flott.  Djöfull flott. 

Hef ekki ímyndunarafl til að koma auga á þau.  

 

 

 

 


mbl.is Réttarfarslegt hneyksli
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband