Of langt gengið, lögregluríki eða glæparíki. Auðvitað á að þurfa dómsúrskurð.

Hérlendis er héraðsdómari á bakvakt allan sólarhringinn, allt árið.  Hægt að fá dómsúrskurð samdægurs í einföldum málum. 

Það er fráleitt að saksóknari, eða lögregla, fái svo mikil völd til að skerða grundvallarmannréttindi nema breyta eigi Íslandi í lögregluríki. 

Í réttarríkjum eiga aðeins dómstólar að heimila slíkt, enda eiga þeir að vera öryggisventill til að kappsamir rannsóknarar, hlaupi ekki fram úr sjálfum sér.  

Aðeins glæparíki skerða grundvallarmannréttindi á grundvelli kjaftasagna, illmælgis og rógburðar.

Handhafar ríkisvaldsins verða að hafa rökstuddan grun um glæp, studdan gögnum til að skerða megi mannréttindi.   Gögnin og grunsemdirnar eiga síðan dómstólar að endurmeta, og heimilda mannréttindaskerðingu eða ekki. 

Í greinargerð með stjórnarskrárbreytingu er gerð var árið 1995, þar sem mannréttindakafli hennar var endurskoðaður segir meðal annars þetta um rétt manna til að fá skorið úr um mál sín fyrir dómstólum:

"...Regluna í 1. mgr. 8. gr. frumvarpsins um aðgang að dómstólum má ekki skilja svo bókstaflega að hún girði almennt fyrir að ákveðnir málaflokkar lúti málsmeðferð innan stjórnsýslunnar. Þess verður þó krafist samkvæmt reglunni að unnt sé að bera lokaákvörðun innan stjórnsýslunnar undir dómstóla, þannig að dómstóll geti a.m.k. metið hvort stjórnvald hafi gætt réttra reglna um málsmeðferð, hvort lögmæt sjónarmið liggja ákvörðuninni til grundvallar og hvort form hennar er lögmætt..."

Við getum leyft okkur að lesa þá meginreglu út úr stjórnarskránni að því viðurhlutameiri sem skerðing persónulegra réttinda er, því líklegra er að skylt sé að almenn lög kveði á um að dómstólar skuli ákveða skerðinguna.

Hér erum við að ræða um að yfirvöld telji svo miklar líkur á að einhver hafi framið refsiverðan verknað, að nauðsynlegt sé að kyrrsetja eigur hans. Stjórnarskráin verndar í þessu tilfelli bæði persónuleg réttindi og einnig eignir borgaranna. Hér er gengið út á ystu nöf og alls ekki víst að lög sem nú þegar eru í gildi standist í öllum tilfellum. Þar er lögmælt að án atbeina dómstóla sé lögreglu heimilt að kyrrsetja eignir grunaðra manna og aðeins nægilegt að rannsókn sé hafin.

Það er líka tekið sérstaklega fram í stjórnarskránni að allir séu saklausir þar til þeir hafa verið sakfelldir af dómstólum. Ekki var hægt að skilja dómsmálaráðherra öðru vísi en svo að nú ætti að ganga ennþá lengra. Sérstakur saksóknari skyldi fá lagaheimild til að kyrrsetja eignir manna, af því að hann væri með hugboð um að hann þyrfti að taka þá til rannsóknar á síðari stigum.  Það er hér sem steininn tekur alveg úr.  Svo framsækin réttarheimspeki er miklu meiri en fráleit í nútíma réttarríki en ágæt í lögregluríki.  Í þriðja ríkinu dæmdu dómarar eins og lögreglan sagði þeim.  Vilja menn það?    

Á Íslandi ákveða dómstólar sjálfir hvort mál heyri undir þá eða ekki.  Þeir myndu einnig í þessum tilvikum ákveða hvort slík löggjöf væri samrýmanleg stjórnarskrá eða ekki.  Með öðrum orðum myndu slíkar kyrrsetningar í einhverjum tilfellum verða strax bornar undir dómstóla.  Þá yrði okkur heyrinkunnugt hvort  Alþingi geti með almennum lögum fært sérstökum saksóknara vald einvaldskonungs.    

Nú á sem sagt að vera nægjanlegt að sérstakur saksóknari tilkynni einhverjum sýslumanninum að hann hafi tekið einhvern til rannsóknar og sýslumaður skuli því kyrrsetja allar eigur viðkomandi.  Samkvæmt lögum um meðferð sakamála sem þegar eru í gildi þarf lögreglan ekki að höfða mál fyrir dómstólum innan viku eins og aðrir þurfa að gera í kyrrsetningarmálum.

Hugmyndin er að sérstakur saksóknari geti upp á sitt eindæmi látið kyrrsetja eigur manna þar til hann ákveður að ákæra þá, eða að ákæra þá ekki.  Gefi hann út ákæru gildi kyrrsetningin þar til dómur fellur.  Kyrrsetningarþolarnir gætu á meðan ekki keypt sér að borða.   Kannski þeir fái matarmiða hjá saksóknara. 


mbl.is Heimild til að frysta eignir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Hryðjuverkalög !!

Svo menn eru bara að læra af bretum ?

Kristjan Hilmarsson (IP-tala skráð) 5.3.2009 kl. 12:36

2 Smámynd: Jóhann Pétur Pétursson

Það eru sko orð að sönnu hjá þér. Þó svo að einhverjir auðjöfrar eða útrásarvíkingar kunni að hafa með háttsemi sinni brotið lög, hversu langt erum við tilbúin að ganga til þess að fullnægja réttlætinu. Þarna er vegið að eignarréttinum

Auðvitað á að ná til þessara manna. En sömu lög gilda fyrir alla þannig að þessi lög, þó þau beinist gegn ákveðnum hópi sem að var framarlega í viðskiptum á ákveðnum tíma, þá ná þessi lög líka til þín og mín. Er fólk tilbúið til þess að skerða sitt frelsi um leið og það er reynt að skerða frelsi þessa tiltekna hóps fólks? Mitt svar er nei. Ef að á að velja á milli þess að einhverjir peningar náist ekki í þágu réttlætis eða að þjóðin í landinu haldi eignarréttinum, þá vil ég frekar halda eignarréttinum.

Jóhann Pétur Pétursson, 5.3.2009 kl. 12:36

3 identicon

Höfum ekki þurft að hafa áhyggjur að KAPPSAMIR rannsóknaraðilar aðilar hafi hlaupið fram úr sér hingað til

Heiður (IP-tala skráð) 5.3.2009 kl. 12:49

4 identicon

Þetta varðar aðeins þá sem tengjast bankahruninu. Upplýsingar um refsiverða háttsemi þurfa að liggja fyrir. Við hvað eru menn hræddir? 

Kolla (IP-tala skráð) 5.3.2009 kl. 12:50

5 identicon

Sæll,

  Af hverju finnst þér þetta vera að skerða mannréttindi? Þú verður að rökstyðja hlutina. Það er ekki hægt að koma með e-ð svona út í loftið. Við vitum öll að aðstæður eru mjög óvenjulegar, og það sem hefur gerst hérna kallar á óvenjuleg vinnubrögð. Af tvennu illu er skárra að "brjóta mannréttindi" í dag, heldur en að senda reikninginn fyrir skuldunum á komandi kynslóðir, og slæva réttlætiskennd almennings svo um munar. Það eru miklu meiri mannréttindabrot, heldur en hitt.

   Með hreinum ólíkinum hvað aðilar um allt land fara að verja sína menn, annars kannski ekki, þar sem seppi litli, sleikir hönd húsbónda síns

Jóhannes (IP-tala skráð) 5.3.2009 kl. 13:22

6 Smámynd: Viggó Jörgensson

Hræddir við að Ísland verði lögregluríki. 

Engin neyð eða vandræðaástand réttlætir afslátt af grundvallarmannréttindum.   Í því er einmitt einnig fólgið að þau gilda fyrir alla, líka bankamenn.  Annars er ótrúlega stutt í að menn verði hengdir í næsta staur af æstum múg eða deyji í fangaklefa ríkisins. 

Lestu Veröld sem var eftir Stefan Sveik.  Hann hélt að hann lifði í réttarríki, hámenningarríki.  Það breyttist á ótrúlega stuttum tíma í glæparíki nasista.  Til að byrja með réttlættu nasistar stefnu sína með tilvísun til kreppu.  Enginn hafði hugrekki til að stöðva tímalega framgang nasista.  Sjáðu kommúnistaríkin, þar voru allir í góðri trú.   Sjáðu öll fastistaríkin um okkar daga. Mannkynssagan segir að þetta eigi eftir að gerast aftur og aftur.  Vonandi ekki á Íslandi.   

Ekkert, alls ekkert, réttlætir minnsta afslátt af grundvallarmannréttindum.   Sé það gert nú, kemur hitt hvað á eftir öðru.  Þó að einhver höndli slíkt vald, getur sá næsti verið brjálaður o. s. frv.    

Viggó Jörgensson, 5.3.2009 kl. 13:36

7 identicon

Svona auðvaldsdrýrkendur eins og þú Viggó Jörgensen, ættu að skríða af upp í þann myrka stað sem þið hafið haldið ykkur frá því flokkurinn ykkar orsakaði hér efnahagshrun fyrir heimilin í landinu.

Það að þú skulir nota jafn gildishlaðið orð og mannréttindi hér um þessi mál setur að manni kvíða í ljósi þess að þú montar þig á því að vera lögræðingur í prófílnum þínum.

Lærðu að skammast þín, þú illa innrætti maður og hugsaðu aðeins um allt fólkið sem hefur misst allt sitt útaf kolrangri pólitík og græðgi eigenda auðvaldsflokksins.

Oh hvað lið eins og þú getið endalaust haldið áfram og manni er farið finnast nóg komið af svona ógeði eins og þið bjóðið upp á í fáránlegum vörnum ykkar fyrir auðvaldið og auðvaldsflokkinn.

Finnur Eggert Að. (IP-tala skráð) 5.3.2009 kl. 13:50

8 Smámynd: Baldvin Jónsson

Þetta er blekkingarleikur sem hér fer fram í þessari frétt. Það er ekki verið að auka nokkuð með þessu frumvarpi varðandi eigna frystingu.

Lögin sem eru í gildi hafa verið á þann veg að um leið og rannsókn er hafin sé til staðar heimild til að frysta eigur grunaðra afbrotamanna.

Ég get ekki séð að hér sé um neina viðbót við það að ræða.

Þetta er kosninga leikur einhverskonar hér á ferðinni.

Baldvin Jónsson, 5.3.2009 kl. 16:34

9 Smámynd: Jóhann Pétur Pétursson

Rosalega er fólk einfalt. Það er ekki verið að setja lög, bara gegn fólkinu sem að tók þátt í bankahruninu. Lög gilda fyrir alla og þar fyrir utan er minnsta málið að heimfæra þessi lög yfir á saksóknara efnahagsbrota eða bara sýslumenn almennt.

Þessi lög og engin lög gilda bara fyrir ákveðinn hóp fólks. Svo finnst mér hryllilegt að heyra fólk segja að það sé betra að brjóta mannréttindi heldur  heldur en að senda reikninginn fyrir skuldunum á komandi kynslóðir, og slæva réttlætiskennd almennings svo um munar. Það eru miklu meiri mannréttindabrot, heldur en hitt.

Í fyrsta lagi þarf ekki að koma til þess að það þurfi að senda nokkurn reikning á komandi kynslóðir. Og ef að við förum að gefa afslátt á okkar réttindum þá er það eitthvað sem að virkilega mun bitna á komandi kynslóðum. Við sem að lifum nú höfum ekkert leyfi til þess að brjóta mannréttindi komandi kynslóða.

Það er ekki langt síðan að Árni Þór Sigurðsson VG og formaður efnahags- og viðskiptanefndar lét þau ummæli falla að eignarréttarákvæðið væri ekkert heilagt þegar kæmi að endurskoðun stjórnarskrárinnar. Þetta sýnir á hvaða braut þessi flokkur er kominn. Hann er smátt og smátt að vega að þeim réttindum sem að við höfum í þessu landi og það finnst mér fráleitt af fólki að taka undir, bara af því að það vill uppfylla einhvera auga fyrir auga réttlætiskennd. Þetta er nefnilega ekki spurning um að þessir menn verði ekki dæmdir sekir. Þau lög og þær heimildir sem að sérstakur saksóknari hefur duga vel til þess. Þetta er spurning um hvort að það sé hægt að ná einhverjum fjármunum til baka. Þá vil ég frekar gefa peningana eftir heldur en þau réttindi sem ég hef og eru í stjórnarskránni. Þau vil ég nefnilega aldrei gefa eftir.

Jóhann Pétur Pétursson, 5.3.2009 kl. 16:56

10 identicon

Það er engin að tala um að það eigi að ganga að venjulegu fólki. Það er ofureinfalt.

 Ef það væri einhver lágmarks pólitískur vilji fyrir því að frysta eignir auðmanna, og afnema bankaleynd o.fl. Þá er það vel framkvæmanlegt án þess að ganga á mannréttindi.

  Hver eru réttindi þeirra Íslendinga sem eru ekki að víla og díla með þjóðarhaginn, og er annt um Ísland, og þess orðstír, er annt um fjárhag þess??

Vonandi og núna fyrst bendir eitthvað til þess að allavega eitthvað verði gert. Maður hélt að okkur væri ekki viðbjargandi, en batnandi mönnum er best að lifa. Meira að segja Bandaríkjamenn eru að hugsa um að fara í herferð gegn ofurbónusunum sem voru borgaðir út.

.....þeir eru harðari en við!! Er það ekki magnað  Þar sem minnsti vafi er túlkaður eignarréttindum í vil, og þar sem lagntum minni rugl var í gangi í fjármálakerfinu en hérna.

    .........Guð blessi Ísland

Jóhannes (IP-tala skráð) 5.3.2009 kl. 17:32

11 Smámynd: Þór Jóhannesson

Menn sem skilja ekki hugtakið mannréttindi ættu ekki að vera að nota það í umræðunni. Kemur þó ekki á óvart þar sem klappstýrur spillingaraflanna eru annars vegar og þar er Jóhann Pétur Pétursson þekktur fyrir sín þrumuskot.

Þór Jóhannesson, 5.3.2009 kl. 18:01

12 Smámynd: Viggó Jörgensson

Jóhannes og Finnur Eggert.  Gott að anda bara rólega með nefinu.  Ef þið skoðið önnur skrif mín þá ætti ykkur að vera ljóst að ég er manna harðastur á að allt verði skoðað, einnig erlendis.   Ég hef einnig minnst á að vesturlönd verði að sameinast um að uppræta skattaparadísir. 

Það á að rannsaka þátt allra í bankahruninu og efnahagshruninu, sérstaklega undanskot.  En það verður er gera það samkvæmt lögum og stjórnarskrá.  Annars hrynur ríkið.   

Þið viljið kannski frekar byltingu og að þessir sem hentu gangstéttarhellunum í höfuð lögreglumannanna, dæmi í málinu.   Slíkt hefur margoft gerst í veraldarsögunni og fjöldi blásaklausra manna hefur verið hengdur upp í næsta tré.  

Svo getur enginn montað sig af að vera lögfræðingur.  Og alls ekki ég sem er eilífðarlaganemi eins og stendur skýrt í höfundarkassanum.    

Viggó Jörgensson, 5.3.2009 kl. 18:44

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband