Vannýtt tækifæri

Ríkisstjórnin átti að gera allar þessar ráðstafanir á meðan ríkissjóður átti alla bankanna. 

En þá var bara verið að hugsa um ESB en ekki fólkið í landinu. 

Ögmundur Jónasson varð fyrst þjóðkunnur þegar hann var í forsvari fyrir svokallaðan Sigtúnshóp í byrjun níunda áratugarins. 

Það var fyrsta kynslóðin sem tók verðtryggð húsnæðislán og lenti í miklum hremmingum þegar laun voru tekin úr sambandi við vísitölu en lánin vissulega ekki. 

Þetta var afar sársaukafull aðferð til að koma verðbólgu niður.   Rjúfa víxlverkun verðlags og kaupgjalds sem leiddi sjálfkrafa til hækkunar á verðbólgu. 

Ögmundur er því reynslunni ríkari í þessum málaflokki. 

Vandinn nú er hins vegar miklu víðtækari þó hann hafi ekki verið skárri þá fyrir viðkomandi einstaklinga. 

Náist samstaða með þeim vondu vogunarsjóðum sem nú ráða öllu í Kaupþingi og Íslandsbanka er það auðvitað frábært.  

Ég á hins vegar eftir að sjá það gerast, þessir menn eru ekki í Hjálpræðishernum. 

Það er hins vegar hægt að setja lög um skilmálabreytingu á lánunum án þess að skaðabótaskylda komi til.  

Veðandlögin, það eru húsin eiga eftir að endast í mannaldur eða meir. 

Það er því engin goðgá að tvöfalda lánstímann með lagaboði.  

Engin eignamyndun á slíkum kjörum en margir gætu þá haldið heimilinu yfir sér og börnum sínum. 

------------------------------

Svo þarf að losna við Svandísi Svavarsdóttur úr ríkisstjórn með hraði.  

Halda áfram skynsamlegum virkjanaframkvæmdum og atvinnuuppbyggingu.  

Þeir sem eru grátbólgnir út af álverum og stálbræðslum mættu huga að einu.

Innan tíðar kemur bætt tækni svo að við getum selt alla okkar umfram raforku til meginlandsins.

Þá gætum við lokað álverum og stálbræðslum um leið og samningar renna út að þær úreldast. 

Annað hvort förum við öll burt og höfum Ísland ósnert eins Galapagoseyjar  eða við byggjum hér hús, vegi, brýr, bryggjur og virkjanir í samræmi við bestu hagsmuni þjóðarinnar.  


mbl.is Niðurfærsla rædd í vikunni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

"Það er hins vegar hægt að setja lög um skilmálabreytingu á lánunum án þess að skaðabótaskylda komi til. " Í raunheimum kæmi ríkið til með að greiða mismuninn þannig að kröfuhafi fengi sitt á umsömdum tíma. Eftir það gengju allar greiðslur til ríkisins. Inngrip ríkisins í frjálsa, löglega samninga eru varasöm og skapa ríkinu oftast bótaskyldu. Og það að meina kröfuhafa aðgengi að eign sinni í einhverja áratugi mundi flokkast sem verulegt inngrip.

Zorglub (IP-tala skráð) 10.10.2010 kl. 14:13

2 Smámynd: Viggó Jörgensson

Ef ég fæ ekki fjárfestingu mína til baka verð ég vissulega fyrir tjóni. 

Fái ég hana til baka en seinna en til stóð er þetta spurning um uppbætur á tímagildi peninganna.  

Þeir sem endurfjármagna íslensku húsnæðislánin eru oft aðilar sem hugsa sína fjárfestingu á áratugum og mannsöldrum.  

Þar er ávöxtunin aðalatriðið ekki endilega endurgreiðslutíminn.  

Þannig vildu erlendir kaupendur húsbréfa frekar 40 ára bréf en 25 ára bréf. 

Viggó Jörgensson, 10.10.2010 kl. 17:00

3 identicon

Hvað gæti komið sér betur fyrir einstaka lánveitendur skiptir ekki máli þegar lög eru sett á heildina. Flestar lánastofnanir eru að lána fé sem þær hafa fengið að láni. Þær haga sínum lántökum og lánveitingum miðað við eðlilegt flæði þar sem innborganir stemma við útborganir. Raskist það flæði lenda bankar og íbúðalánasjóður í kostnaðarsamri sjóðþurrð. Allir eiga rétt á að fá fé sitt á réttum tíma, ríkið getur því ekki sett svona lög nema koma sjálft inn með fjármagn til að dekka mismuninn þannig að enginn bíði skaða af.

Zorglub (IP-tala skráð) 10.10.2010 kl. 18:19

4 Smámynd: Sigurður M Grétarsson

Ríkissjóður var ekkert í betri stöðu með það að lækka lán landsmanna þegar hann átti alla bankana vegna þeirrar einföldu staðreyndar að þá áttu nýju bankarnir ekki þessar kröfur því það voru þrotabú gömlu bankanna, sem áttu þær. Það var ekki fyrr en samningar höfðu tekist við klröfuhafa í þrotabú gömlu bankanna um kaup nýju bankanna á þessum kröfum, sem nýju bankarnir voru orðnir eigendur krafnanna. Það var reyndar ekki fyrr en þá, sem nýju bankarnir voru í raun formlega stofnaðir og þeim fengið nauðsynlegt eigið fé frá ríkinu. Það var því á sama tíma og nýja Kaupþing og nýi Glitnir voru settir í meirihlutaeigu kröfuhafa með samningum við skilanefndir gömlu bankanna, sem þeir bankar eignuðust lánasöfn gömlu bankanna. Lánasöfn Gamla Kaupþings og Gamla Glitnis voru því aldrei í meirihlutaeigu ríkisins.

Sigurður M Grétarsson, 10.10.2010 kl. 18:49

5 Smámynd: Viggó Jörgensson

Flækjustigið hefur verið lægra þegar ríkið átti bankanna.  

Varðandi lánalengingu fer því fjarri að allir myndu vilja þiggja slíkt.  Eignamyndun tæki kynslóðir.

Auðvitað kæmi ríkið að slíkum málum.  Skuldabréfin á bak við húsbréfin seldust af því að það var ríkisábyrgð á þeim.

Þeir sem reka t. a. m. lífeyrissjóði þarfa að hugsa í mannsöldrum.   

Öryggi og ávöxtun er þar meira atriði en hröð endurgreiðsla á höfuðstól.   Stærstur hluti þeirra fjármagns þarf að vera einhvers staðar á vöxtum sem lengst.   

Viggó Jörgensson, 10.10.2010 kl. 20:12

6 Smámynd: Sigurður M Grétarsson

Flækjustigið fer ekki eftir því hverjir eiga lánastofnanirnar heldur hverjir eiga skuldabréfasöfnin. Flækjustigið var því síst minna áður en búið var að semja við kröfuhafana í þrotabú gömlu bankanna um kaup á þessum skuldabréfasöfnum. Stærstu mistökin við þá samninga voru reyndar að setja ekki fyrirvara varðandi lögmæti lánanna í þessum lánasöfnum. Fyrir vikið situr ríkissóður uppi með stóran hluta skellsins vegna Hæstaréttardóms um ólögmæti gengistryggðra lána. Ef líka fellur dómur um forsendubrest verðtryggðra lána kemur enn stærri skellur á ríkissjóð.

Hvað varðar lög um rétt manna til að lengja í lánunum þá er ég nú ekki eins svartsýnn á það eins og Zorglub. Vissulega þyrfti þá að fylgja réttur viðkomandi lánastofnanna til að taka lán hjá Seðlabankanum til að bæta sér upp lækkað innstreymi fjár með veði í þessum lánum. Gallinn er hins vegar sá að vegna þess hversu hári vextir eru hér á landi og flest þessi lán jafngreiðslulán þá verður munurinn í greiðslubyrgði ekkert rosalega mikill þó 40 ára lán sé lengt í 100 ára lán. Þess vegna tel ég að eitthvert dæmi líkt og er nú í greiðslujöfnunarvísitölunni en gengur þó eitthvað lengra en það sé það, sem þarf að koma til. Mér líst til dæmis ágætlega á hugmynd, sem Hallur Magnússon kom með skömmu eftir hrun þar, sem hreinlega væri gert ráð fyrir að fólk gæti farið í greiðslumat og greiddi samkvæmt því næstu þrjú árin jafnvel þó sú greiðsla dugi ekki einu sinni fyrir vöxtum. Eftir þrjú ár er einfaldlega farið aftur yfir dæmið og ef lántaki er þá ekki enn orðin borgunarmaður fyrir láninu samkvæmt greiðslujöfnunarvísitölu eða eðlilegri greiðslubyrði þá tekur við annað þriggja ára tímabil.

Þegar kreppan hefur tekið enda þá munu fjölskyldur á endanum getað ráðið við greiðslurnar af húsnæðislánum sínum eða að verðmæti íbúðar þeirra verður orðið meira en lánanna þannig að hægt verður að selja íbúðina og annað hvort minnka við sig eða fara í leiguhúsnæði. Hvað varðar neyslulán eins og bílalán getur hins vegar verið erfiðara að meðhöndla með þeim hætti og því verður að finna aðrar leiðir hvað það varðar.

Sigurður M Grétarsson, 11.10.2010 kl. 10:03

7 identicon

Þú talar Viggó, um að hækka lánstímann.

Hvað með mig ef ég væri 50 ára í dag og hefði keypt mína fyrstu íbúð fyrir 2 árum. Lánið hefði verið 11 milljónir og væri búinn að borga af því hver mánaðarmót tugi þúsunda.

Í dag stendur lánið í tæpum 16 milljónum og fer hækkandi.

Ef það er lausn að hækka lánstímann..... eiga þá börnin mín að klára að borga eftir að ég dey ? eða barnabörnin.

Það gengur ekki að fólk sé í skuldafangelsi allt sitt líf og það borgar og borgar af lánum sínum en aldrei sér högg á vatni.

Það gengur ekki að ýta tapinu sem varð vegna hrunsins yfir á íbúðareigendur. Sanngirni verður að gilda og vegna þessa gífurlega forsendubrests verður að skipta tapinu á milli lántaka og þess sem lánar.

Bankahrunið hefur komið okkur öllum illa en einn þjóðfélagshópur á ekki að græða á hruninu.

Að hækka lánatíman í 80 ár gerir ekkert annað en að fólk borgar allt sitt líf en eignast sama sem ekkert.

Einar (IP-tala skráð) 11.10.2010 kl. 11:12

8 Smámynd: Viggó Jörgensson

Þakka ykkur kærlega innlitið Einar og Sigurður. 

Ég ætla að reikna svolítið og hugleiða það sem þið segið. . 

Viggó Jörgensson, 12.10.2010 kl. 22:09

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband